Kaupþing ákvað að lána stórar fjárhæðir til umsvifamikilla viðskiptavina til kaupa á skuldatryggingum bankans um sumarið 2008 með það fyrir augum að láta reyna á hvað myndi gerast ef bankinn hefði sjálfur forgöngu um að kaupa tryggingarnar. Mánuðina á undan hafði álag á skuldatryggingar bankans tekið að hækka og voru stjórnendur hans hræddir um að ef þróunin héldi áfram myndu lánalínur bankans lokast. Lánin töpuðust við fall bankans og er tjónið talið nema rúmum hálfum milljarði hið minnsta.
Í gær var greint frá því að sérstakur saksóknari hefði ákært þrjá fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, þá Hreiðar Má Sigurðsson, Sigurð Einarsson og Magnús Guðmundsson vegna viðskipti bankans fyrir efnahagshrunið. Snýst málið um þessi lán til kaupa á tryggingum, en Sigurður fjallaði meðal annars um þau í bréfi sem hann sendi vinum og vandamönnum í janúar 2009.
Í bréfinu reifar Sigurður það hvernig álag á skuldatryggingar bankans hafi hækkað sumarið fyrir hrunið. Segir hann að stjórnendum bankans hafi borist fjölmargar ábendingar um að verið væri að spila með tryggingar á bankann og að á bak við verðmyndunina væru aðeins tilboð sem færu kaupum og sölum milli þriggja aðila.
„Með þessum viðskiptum var ætlunin að kanna hve djúpur markaðurinn með skuldatryggingarnar á bankann væri og veita viðspyrnu gagnvart þeim aðilum sem skipulega unnu gegn bankanum og þar með íslensku efnahagslífi í gegnum skuldatryggingaálagið,“ segir Sigurður í bréfinu.
Bankinn mátti aftur á móti ekki kaupa eigin skuldatryggingar og því var farið að tillögu Deutsche Bank um hvernig setja ætti viðskiptin upp. Bæði Kaupþing og Deutsche Bank lánuðu til viðskiptanna, en í fréttaskýringu Kjarnans í gær kemur fram að í heild hafi Kaupþing lánað fyrir 510 milljónir evra til þessara kaupa.
Þau félög sem fengu lánað hétu Trenvis Limited, Holly Beach S.A.,Charbon Capital LTd. og Harlow Equities S.A., samkvæmt frétt Kjarnans. Þau voru í eigu vildarviðskiptavina bankans, þeirra Skúla Þorvaldssonar, Ólafs Ólafssonar, Kevin Stanford og Karen Millen og Antonious Yerolemou.
Í fyrrnefndu bréfi segir Sigurður að viðskiptin hafi verið lögleg og gerð með hagsmuni Kaupþings í huga. „Engar reglur né lög voru brotin í tengslum við lán til viðskiptavina bankans sem veitt voru í ágúst og september á síðasta ári. Lánin voru liður í að treysta stöðu Kaupþings og tengjast kaupum viðkomandi aðila á afleiðum tengdum skuldatryggingum (e. Credit Linked Notes) á Kaupþing sjálft,“ segir þar.
Þá tekur Sigurður fram að tjón sem kann að hafa orðið af viðskiptunum hafi lent á skuldabréfaeigendum og bönkum sem lánuðu til viðskiptanna, en Kjarninn segir tjón Kaupþings í það minnsta vera 510 milljónir.
Málið gegn þremenningunum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní nk.