Icelandair ætlar ekki að fastráða hóp flugfreyja og þjóna frá og með 1. júní næstkomandi sökum þeirrar óvissu sem nú ríkir innan fyrirtækisins. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var á alla áhafnarmeðlimi og stjórnendur fyrirtækisins í dag.
Sturla Óskar Bragason, varformaður í Flugfreyjufélagi Íslands, segist aðspurður ekki hafa gert ráð fyrir svona tilkynningu og að hún komi á óvart. Hann lítur á að um frestun á ráðningum sé að ráða, en hluti flugfreyja hjá Icelandair er með svokallaða tímabundna ráðningu og vinnur þá sex til níu mánuði á ári, en er svo sagt upp störfum fyrir veturinn og aftur ráðið næsta sumar.
Aðspurður um það hvort í þessu útspili felist óbein hótun vegna fyrirhugaðs verkfalls segist Sturla ekki geta lesið það úr þessum orðum og að þau myndu ekki hafa áhrif á núverandi kjarabaráttu.