Sigmar hyggst láta af störfum

Sigmar Vilhjálmsson.
Sigmar Vilhjálmsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmar Vilhjálmsson hyggst láta af störfum hjá Konunglega kvikmyndafélaginu í kjölfar yfirtöku 365 miðla á öllum hlutum félagsins. „Ég mun víkja sæti,“ segir hann í samtali við mbl.is. Sigmar er einn af stofnendum félagsins.

Hann segist vera nokkuð bjartsýnn á að starfsfólkið sem hefur starfað hjá Konunglega kvikmyndafélaginu, sem rekur fjölmiðlana Bravó og Miklagarð, komi til með að halda sínum verkefnum.

„Þeir kaupa félagið sjálft og munu starfrækja það áfram. Það er enn starfsemi í fullum gangi og þeirra hugmyndir eru að halda áfram með verkefnið, þ.e. Bravó, halda þeim miðli gangandi, efla hann og auka vegferð hans. Þannig að það þarf okkar fólk í að gera það,“ segir Sigmar.

Eins og greint var frá fyrr í dag hafa 365 miðlar og hluthafar Konunlega kvikmyndafélagsins komist að samkomulagi um að 365 miðlar taki yfir alla hluti í Konunglega kvikmyndafélaginu. Nýir eigendur ahfa hug á því að efla enn frekar starfsemi Bravó, en hins vegar hefur verið ákveðið að gefa Miklagarði sumarfrí frá og með 1. júní næstkomandi og munu nýir eigendur endurhugsa grundvöll þeirrar stöðvar.

Leituðu aukins hlutafjár

Í lok aprílmánaðar tilkynnti Konunglega kvikmyndafélagið að það leitaði aukins hlutafjár til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur félagsins. Öllum ellefu fastráðnu starfsmönnum þess, þar á meðal fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins, var sagt upp störfum, sem og verktökum sem höfðu sinnt störfum fyrir félagið.

Í tilkynningu segir að kostnaður við uppsetningu hafi reynst meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hafi vilji hluthafa jafnframt ekki staðið til þess að skuldsetja áframhaldandi rekstur. Í kjölfar samningaviðræðna um hlutafjáraukningu varð niðurstaðan sú að 365 miðlar tækju yfir alla hluti í félaginu.

Sáttur með niðurstöðuna

Sigmar segist vera sáttur með niðurstöðuna. „Þetta er kannski ekki það sem við lögðum upp með í upphafi, en það er ljóst að 365 mun geta unnið með þessa miðla eins og við ætluðum að vinna með þá, allavega Bravó. Það er að minnsta kosti nokkuð ljóst.

Þeir munu örugglega ná fyrr settu marki. Við erum fyrst og fremst ánægðir með það að verkefnið sem við settum í gang sé komið á þann stað að það geti haldið áfram. Fyrir okkur er það lykilatriði gagnvart starfsfólki og því sem við höfum verið að koma okkur upp,“ segir Sigmar.

Eins og áður sagði hyggst Sigmar láta af störfum hjá félaginu. Aðspurður hvað taki nú við hjá honum segir hann að ýmis verkefni séu í farvatninu. „Það er eitthvað á minni könnu sem mun án efna taka tíma minn og hug,“ segir hann.

Frétt mbl.is: 365 tekur yfir Konunglega kvikmyndafélagið

Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega …
Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega kvikmyndafélaginu.
mbl.is/Heiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK