Tímamót í þremur kísilverkefnum

Terry Jester, forstjóri bandaríska iðnfyrirtækisins Silicor Materials, og Gísli Gíslason, …
Terry Jester, forstjóri bandaríska iðnfyrirtækisins Silicor Materials, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Ljósmynd/Faxaflóahafnir

Það er sannarlega útlit fyrir að fjárfestingar hér á landi muni stóraukast á næstu misserum, en á næstu þremur árum er fyrirhugað að reisa hér þrjár kísilverksmiðjur. Um er að ræða tvö kísilver í Helguvík á Reykjanesi og eitt sólarkísilver á Grundartanga.

Dagurinn í dag markaði stór tímamót í öllum þessum verkefnum.

Hafist var handa við byggingu kísilmálmverksmiðju bandaríska félagsins United Silicon í Helguvík, iðnfélagið Thorsil, sem hyggst einnig reisa verksmiðju í Helguvík á næstu þremur árum, skrifaði undir samning um sölu á dreifingu á 24 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári næstu átta árin og þá var samningur jafnframt undirritaður vegna byggingar nýrrar sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga.

Framkvæmdir af stað í Helguvík

Eins og áður sagði hófust í dag framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík. United Silicon er tiltölulegt nýtt félag, stofnað af hópi manni í hinum evrópska kísilmálmiðnaði, en þeir hafa um nokkurt skeið haft áform um að reisa hér verksmiðju til að mæta vaxandi eftirspurn viðskiptavina sinna í Evrópu.

Félagið kepyti þróunarfélagið Stakksbraut 9 ehf. sem á lóðina í Helguvík og var umhverfismat fyrir verkefnið samþykkt af Skipulagsstofnun í maímánuði árið 2013.

Það var síðan í marsmánuði á þessu ári sem forstjóri Landsnets undirritaði samkomulag við United Silicon um raforkuflutninga vegna kísilversins. Áætluð aflþörf verksmiðjunnar er um 35 megavött og miðast samkomulagið við að orkuafhending hefjist í febrúar árið 2016.  

Landsnet hefur undirbúið tengingu iðnaðarsvæðisins í Helguvík við meginflutningskerfið á Fitjum í Reykjanesbæ og hefjast framkvæmdir á næsta ári. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að afhendingaröryggi muni síðan aukast með nýrri Suðurnesjalínu sem til standi að leggja.

„Samkomulagið við Landsnet er mikilvægur áfangi í áformum okkar um að byggja kísilver í Helguvík,“ var haft eftir Joseph Dignam, stjórnarmanni United Silicon. „Gangi þau öll eftir verður starfsemin komin á fullan skrið í apríl 2016. Framleidd verða tuttugu þúsund tonn af kísilmálmi og því fylgja um 65 framtíðarstörf á Reykjanesi, að ótöldum þeim störfum sem verða til vegna kaupa á þjónustu og orku,“ sagði hann.

Fá hinar ýmsu ívilnanir

Landsvirkjun tilkynnti sama dag að það hefði skrifað undir raforkusölusamning við félagið. Sagðist Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, vera viss um að kísilmálmiðnaður myndi dafna á Íslandi til langs tíma þar sem raforka væri unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í aprílmánuði dró aftur til tíðinda þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skrifaði undir fjárfestingarsamning við United Silicon. Um var að ræða samning upp á 74 milljónir evra, tæplega 11,4 milljarða íslenskra króna. Þá kom fram að gert væri ráð fyrir að sextíu starfsmenn kæmu til með að vinna við verksmiðjuna og að starfsmenn við byggingu hennar yrðu allt að tvö hundruð.

Samkvæmt samningnum voru veittar ívilnanir til verkefnisins en til að mynda fær félagið 50% afslátt af fasteignaskatti til Reykjanesbæjar og 30% afslátt af gatnagerðargjöldum. Þá er ekki heimilt að leggja ný gjöld eða skatta, sem varða rafmagnskaup eða raforkunotkun félagsins, nema slíkt sé lagt á önnur félög á Íslandi.

United Silicon fékk Íslenska aðalverktaka til að hefja verkið en að sögn Péturs Jóhannssonar, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs Reykjanesbæjar, hófst jarðvegsvinnan í morgun. Kísilmálmverksmiðjan verður byggð upp í þremur áföngum og verður sá fyrsti með um 22 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Þegar allt verður tilbúið er gert ráð fyrir að verksmiðjan geti framleitt allt að hundrað þúsund tonn af kísilmálmi á hverju ári.

Bent hefur verið á að enn séu til staðar fyrirvarar í þeim samningum sem United Silicon hafa gert. Rætt var um að þeim yrði aflétt í maí, en ekki hefur enn komið til þess.

Samningur upp á 67 milljarða króna

Fulltrúar Thorsil ehf. og Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum skrifuðu í Háskólanum í Reykjavík í dag, að fjármálaráðherra viðstöddum, undir samning um sölu og dreifingu á 24 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári í átta ár. Thorsil hyggst hefja afhendingu á málminum árið 2017.

Verðmæti viðskiptanna, sem samningurinn nær til, er um 67 milljarðar króna. Thorsil er jafnframt með í undirbúningi langtímasamninga við fleiri erlenda stórnotendur á kísilmálmi.

Thorsil fékk í aprílmánuði síðastliðnum úthlutað sextán hektara inðaðarlóð skammt frá höfninni í Helguvík, en fyrirtækið vinnur að undirbúningi að því að reisa og reka kísilmálmverksmiðju á svæðinu. Verksmiðjan mun framleiða um 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári og verður fjöldi starfsmanna um 130. 

Talið er að rúmlega 300 manns muni hins vegar starfa við byggingu verksmiðjunnar.

Thorsil er alfarið í eigu Íslendinga en hluthafar félagsins eru Northsil ehf. og Strokkur Silicon ehf. 

Verkefnið enn í umhverfismati

Að sögn Péturs Jóhannssonar hjá Reykjanesbæ er verkefnið enn í umhverfismati. Ekki sé reiknað með að framkvæmdir hefjist fyrr en undir lok ársins. Í tilkynningu frá félaginu segir jafnframt að gert sé ráð fyrir að þær hefjist á fyrsta ársfjórðungi á næsta ári og framleiðsla á kísilmálmi tveimur árum síðar, eða á fyrsta fjórðungi ársins 2017.

Fyrirtækið hefur samið við verkfræðistofuna Mannvit um hönnun verksmiðjunnar. Samningurinn felur það í sér að Mannvit mun, ásamt norsku verkfræðistofunni Norconsult AS, hafa umsjón með hönnun, útboðum og byggingu verksmiðjunnar.

Haft var eftir John Fenger, stjórnarformanni Thorsils, að sölusamningur félagsins við Hunter Douglas Metals væri stór og mikilvægur áfangi fyrir félagið. Með honum hefði það tryggt sölu á 45 prósentum af árlegri framleiðslu fyrirtækisins á fyrstu átta starfsárum þess. „Samningurinn er mikilvægur fyrir fjármögnun verkefnisins og annan lokaundirbúning að byggingu verksmiðjunnar,“ sagði hann.

Eitt stærsta iðnverkefni landsins

Terry Jester, forstjóri bandaríska iðnfyrirtækisins Silicor Materials, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, undirrituðu í hádeginu í dag samningsskilmála vegna byggingar nýrrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Gert er ráð fyrir að bygging fyrri áfanga verksmiðjunnar hefjist í októbermánuði næstkomandi og ljúkí í júní árið 2016. Vonir standa til þess að fyrri áfanginn verði kominn í fullan rekstur í júlí 2017. Síðari áfanginn á síðan að vera kominn í rekstur þremur mánuðum síðar.

Um er að ræða eitt stærsta iðnverkefni á Íslandi.

Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar er um 690 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 78,2 milljörðum króna. Þar af kostar tækjabúnaðurinn um 414 milljónir Bandaríkjadala og kemur hann að mestu leyti frá SMS Siemag í Þýskalandi.

Skapa hundruði starfa

Sjálf verksmiðjubyggingin verður um 93 þúsund fermetrar og framkvæmdasvæðið allt um 223 þúsund fermetrar. Alls mun verksmiðja skapa um 400 störf auk fjölda afleiddra starfa á byggingartímanum.

Sólarkísilverksmiðjan byggir á framleiðsluaðferð sem Silicor Materials fann upp og á einkaleyfi á, þ.e. að kísilmálmurinn er leystur upp í bræddu áli. Silicor hefur rekið tilraunaverksmiðju í Toronto í Kanada til að sýna og sanna að vinnsluferlið virki vel. Þar hefur fyrirtækið bæði framleitt og selt viðskiptavinum víða um heim sólarkísil. Alls hafa verið framleidd 700 tonn af sólarkísil og yfir 20 milljónir sólarhlaða með kísil frá Silicor.

Verksmiðjan mun þurfa 85 megawatta orku sem Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og mögulega aðrir orkuframleiðendur munu leggja til.

Eins og áður sagði hafa samningar verið undirritaðir um byggingu verksmiðjunnar en enn á eftir á skrifa undir orkusamninga. Davíð Stefánsson, sem hefur verið Silicor Materials til ráðgjafar á Íslandi, sagði við Morgunblaðið að sú vinna gengi vel. Einnig er verið að vinna að gerð fjárfestingarsamnings við íslenska ríkið og miðar þeirri vinnu að sama skapi vel.

Hér má sjá yfirlitsmynd yfir svæðið. Kísilverksmiðjur Thorsil og United …
Hér má sjá yfirlitsmynd yfir svæðið. Kísilverksmiðjur Thorsil og United Silicon munu rísa á svæðinu hægra megin á myndinni.
Fulltrúar Thorsil ehf., Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum og Bjarni …
Fulltrúar Thorsil ehf., Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra í Háskólanum í Reykjavík í dag. mbl.is/Eggert
Skrifað var undir samningsskilmála vegna byggignar nýrrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga …
Skrifað var undir samningsskilmála vegna byggignar nýrrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga í dag. Ljósmynd/Faxaflóahafnir
Sólarkísilverksmiðjan verður reist á Katarnesi við Grundartanga.
Sólarkísilverksmiðjan verður reist á Katarnesi við Grundartanga. Ljósmynd/Silicor
Hér mun sólarkísilverksmiðjan rísa á Grundartanga.
Hér mun sólarkísilverksmiðjan rísa á Grundartanga. Ljósmynd/Faxaflóahafnir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK