Fyrrverandi eigendur Skeljungs, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, saka Íslandsbanka um að hafa reynt að láta þau gangast undir samkomulag þar sem þau ættu áfram bréf Skel Investments, sem fór með þriðjungshlut í Skeljungi, en bankinn ætti hins vegar að stjórna þeim.
Í viðtali í Viðskiptamogganum í dag segja þau bankann hafa viljað komast hjá því að tilkynna eftirlitsaðilum um eignarhald sitt á félaginu.
„Þetta er bókstaflega tekið fram í samkomulagi sem við fáum sent því bankinn vildi ekki eignast félagið formlega,“ segir Guðmundur, en Íslandsbanki var veðhafi í félaginu vegna seljendaláns sem bankinn veitti við kaup hjónanna á Skeljungi haustið 2008. Eftir að hafa „hótað“ að gjaldfella lánið á fyrsta ársfjórðungi 2012, útskýrir Guðmundur, þá býðst bankinn „fremur til að semja um seljendalánið í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutafé Skeljungs. Þá tók við sérkennileg atburðarás.“