Tölvuleikjafyrirtækið CCP tilkynnti í dag að fyrirtækið hygðist leggja niður 49 störf í kjölfar skipulagsbreytinga í útgáfustarfsemi þess. Af þeim störfum sem lögð eru niður eru 27 þeirra í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.
Í tilkynningu frá félaginu segir að skipulagsbreytingarnar séu liður í áherslubreytingum CCP í vöruþróun, þar sem lögð sé áhersla á þróun og útgáfu tölvuleikja fyrir einn og sama leikjaheiminn, EVE veröldina. Skipulagsbreytingarnar varða útgáfustarfsemi CCP og hafa ekki áhrif á leikjaþróun fyrirtækisins.
CCP veitir öllum fráfarandi starfsmönnum stuðning og aðstoð við atvinnuleit.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir það vera fyrirtækinu þungbært að kveðja hæfileikaríkt starfsfólk og vini. Fólk sem hAFI lagt sitt af mörkum til fyrirtækisins og skilað mjög góðri vinnu við útgáfustarfsemi þess.
„En í ljósi breyttra aðstæðna, og stefnubreytinga í vöruþróun fyrirtækisins, er ég sannfærður um að þessar skipulagsbreytingar muni til lengri tíma litið styrkja og efla starfsemi CCP,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Ekki gert ráð fyrir frekari uppsögnum