27 starfsmönnum tölvuleikjaframleiðandans CCP í höfuðstöðvum þess að Grandagarði í Reykjavík verður sagt upp í kjölfar áherslubreytinga félagsins. Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir að engar frekari uppsagnir séu ráðgerðar.
Allur gangur er á því hversu lengi starfsmennirnir, sem nú hefur verið sagt upp störfum, hafa starfað hjá fyrirtækinu. Sumir hafa starfað þar lengi, í fleiri ár, en aðrir ekki.
Að sögn Eldars verður alls 49 starfsmönnum sagt upp.
CCP tapaði alls 21,3 milljónum Bandaríkjadala, eða 2,4 milljörðum íslenskra króna, á síðasta ári. Það má að miklu leyti rekja til afskrifta og niðurfærslu óefnislegra eigna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og skatta (EBITDA) nam 19,8 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir 2,2 milljörðum íslenskra króna.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, sagði þá í samtali við mbl.is að tapið tengdist ekki beint rekstri félagsins. Tekjur þess hefðu til að mynda aldrei verið hærri.
Hins vegar hefði fyrirtækið gert upp fortíðina og afskrifað þróunarkostnað sem hefði verið bókfærður á eignahlið. Um væri að ræða eina staka niðurfærslu eftir mjög nákvæma skoðun og áherslubreytingu.
Hann sagðist hins vegar ekki vilja tjá sig um þessar breytingar fyrr en líði á árið.
„Við erum að vaxa þegar horft er til EBITDA og tekna. Það er fyrst og fremst þróunarkostnaðurinn sem er tekinn niður og það kemur niður á lokaniðurstöðunni,“ sagði Hilmar. Hann sagði að fyrirtækið hefði grandskoðað framtíðarstefnuna og breytt um stefnu varðandi nokkur málefni. Ákveðinn hluti af þróunarvinnu hefði verið hluti af fortíðinni og að mikilvægt hefði verið að segja skilið við hann til að stefna inn í framtíðina.
Frétt mbl.is: CCP leggur niður 49 störf
Frétt mbl.is: CCP horfir til framtíðar með hreinsun