Væntingar kröfuhafanna of miklar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Væntingar slitabúa föllnu bankanna hafa hingað til verið of miklar og óraunhæfar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að á þessu ári muni stjórnvöld loksins komast að því hvort hægt verði að mæta væntingum þeirra og finna lausn á deilunni. Ómögulegt sé að komast að því á næsta eða þarnæsta ári hvort lausnin geti fundist. Það verði að fá botn í málið í ár.

Bjarni flutti erindi á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Nordica Hótel í morgun. Eins og mbl.is hafði greint frá var Bjarni, ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, við veiðar í Norðurá í Borgarfirði í morgunsárið. Hann setti í 78 sentímetra grálúsuga hrygnu á Brotinu skömmu fyrir klukkan hálf átta og landaði henni stuttu síðar. Klukkan níu var hann síðan mættur á ráðstefnuna í Reykjavík.

Auk Norsk-íslenska viðskiptaráðsins var fundurinn á vegum Íslandsbanka og hins norska DNB banka.

Ráða sérstaka framkvæmdastjórn

Í erindi sínu sagði hann fátt vera jafnmikilvægt fyrir íslenskan fjármálamarkað og að losa fjármagnshöftin. Umfangsmikill undirbúningur hefði staðið yfir undanfarna mánuði við þá vinnu og nú hefði verið ákveðið að ráða sérstaka framkvæmdastjórn um losun fjármagnshafta. Hann sagði að það yrði líklegast gert síðar í mánuðinum.

Bjarni hefur á öðrum vettvangi sagt að það feli í sér mikla breytingu. Hingað til hafi fjöldi fólks verið í fullu starfi við að fylgja eftir höftunum og tryggja, ef svo má segja, rétta framkvæmd þeirra, en aðeins einn starfsmaður haft haft losun þeirra að meginstarfi.

Bjarni sagði á fundinum í morgun að síðar í sumar gætu stjórnvöld og ráðgjafar þeirra, talað meira opinskátt um þær væntingar og þau skilyrði sem þyrftu að vera til staðar þegar höftunum yrði aflétt.

Hann ítrekaði jafnframt það sem hann hefur áður sagt að heildarhagsmunir þjóðarinnar lægju umfram allt í því að þróa heildstæða lausn sem skildi ekki íslenskan almenning eftir í súpunni. Jafnræði væri algjört lykilatriði.

Háð því að réttu skilyrðin séu til staðar

Á ársfundi Fjármálaeftirlitsins fyrir skömmu sagði Bjarni að það væri vissulega eftirsóknarvert að flýta eins og unnt væri lausn á málinu. Það væri hins vegar glapræði að skipta á skjótri lausn og efnahagslegum stöðugleika.

„Sjálfur hef ég oftar en einu sinni talað fyrir því að ég vildi lausn fyrr en síðar. Það hefur þó ávallt verið háð því að réttu skilyrðin væru til staðar.  Fram til þessa hafa væntingar slitabúanna verið óraunhæfar. 

Verkefnið er að tryggja, að samhliða afnámi gjaldeyrishaftanna séu lífskjör í landinu varin, að jafnræði gildi og að þeim mikla árangri sem þegar hefur náðst verði ekki varpað fyrir róða að ástæðulausu,“ sagði hann ennfremur.

Frétt mbl.is: Bjartari tímar framundan

Frétt mbl.is: Íslensku bankarnir vel fjármagnaðir

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Þórður
mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK