Neytendastofa hefur sektað fimm smálánafyrirtæki um samtals 1,25 milljónir króna fyrir að fara ekki eftir lögum um neytendalán, en þau gerðust öll sek um að rukka of háan kostnað.
Um er að ræða tvær ákvarðanir, en önnur er vegna smálánafyrirtækjanna Kredia og Smálána en hin er vegna fyrirtækjanna 1909, Hraðpeninga og Múla.
Neytendastofa tók til skoðunar kostnað sem smálánafyrirtækin taka og hvernig árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) er reiknuð. Fram kemur á vef Neytendastofun, að fyrirtækin bjóði neytendum lán sem taki um átta daga að afgreiða og rukka fyrir það kostnað sem nemi um 50% ÁHK. Þessu til viðbótar geta neytendur valið að fá lánshæfismat afgreitt á einni klukkustund til þess að fá lánið greitt út strax. Fyrir flýtiþjónustuna þarf að borga aukalega en fyrirtækin hafa ekki tekið kostnaðinn af henni með í útreikninginn.
Í skýringum fyrirtækjanna kom fram að þar sem neytendur geta vali hvort þeir borgi fyrir að fá lánhæfismat afgreitt hraðar teljist kostnaðurinn af matinu ekki hlut af heildarlántökukostnaði og sé þess vegna ekki hluti af ÁHK. Neytendastofa féllst ekki á þessa skýringu þar sem lánveitandi á að framkvæma lánshæfismat þó hann megi rukka fyrir það. Kostnaður við gerð lánshæfismats telst hluti af heildarlántökukostnaði og á hann að vera innifalinn í útreikningi á ÁHK.
Þegar þessi kostnaður er tekinn með í útreikninginn verður ÁHK hjá öllum fyrirtækjunum mun hærri en 50% eða 2.036,6% hjá Múla, Hraðpeningum og 1909 og 3.214,0% hjá Kredia og Smálán. Vegna þessa hefur Neytendastofa sektað smálánafyrirtækin Kredia og Smálán um 250.000 krónur hvort fyrir að hafa ekki farið að lögum um neytendalán.
Þá var Neytendalán ehf., sem er rekstraraðili smálánafyrirtækjanna Múla,
Hraðpeninga og 1909, sektað um 750.000 kr. fyrir að fara ekki að lögum.