Helgi Vífill Júlíusson
Fulltrúar frá bandaríska smásölurisanum Costco funduðu með bæjaryfirvöldum í Garðabæ á fimmtudaginn um að opna mögulega verslun í Kauptúni 3, steinsnar frá IKEA, en þar eru m.a. Bónus og Habitat til húsa. Um var að ræða fyrsta fund þeirra á milli. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið.
Costco leggur einkum áherslu á að selja margvíslegar vörur í magnpakkningum á lágu verði. Á meðal þess sem er selt í verslunum Costco eru matvörur, raftæki, húsgögn og fatnaður.
Fram kom í Morgunblaðinu í mars að Costco, sem er næststærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, hefði til skoðunar að opna verslun hér á landi. Fulltrúar fyrirtækisins hefðu átt fundi með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem og Seðlabanka Íslands.
Gunnar segir að fulltrúar Costco hafi spurt ýmissa tæknilegra spurninga, svo sem hvort breyta mætti húsnæðinu ef þeir hæfu þar verslunarrekstur. Málið hafi þó ekki verið tekið formlega fyrir hjá bæjaryfirvöldum.