Flugprófunarfloti A350 fullbúinn

Airbus A350 XWB, MSN5 flugprófunarvélin í Toulouse í dag.
Airbus A350 XWB, MSN5 flugprófunarvélin í Toulouse í dag. Ljósmynd/Airbus

Síðasta flugprófunarvélin að gerðinni A350 XWB tók á loft frá Toulouse í Frakklandi í dag. Er þá flugprófunarflotinn fullbúinn og segir evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus að framleiðsluferlið sé á áætlun, að Qatar Airwaves fái fyrstu vélina afhenta á síðasta ársfjórðungi 2014.

Flugprófunarvélin MSN5 er önnur A350 þotan sem framleidd er með fullbúnu farþegarými. Hún verður meðal annars notuð til að fá öll þau tilskildu leyfi sem eftir eru áður en hægt verður að afhenda flugfélögum nýju vélina.

A350 XWB flugprófunarvélunum hefur þegar verið flogið í meira en tvö þúsund klukkustundir í um fimm hundruð flugferðum. Airbus hefur ekki áður flogið vélum sínum jafn lengi í flugprófunum.

Fjölmiðlaferð farin í síðustu viku

Fréttir af því að flugfélagið Emirates hætti við pöntun sína á sjötíu A350 XWB þotum frá Airbus varð til þess að flugvélaframleiðandinn skipulagði sérstaka flugferð fyrir fjölmiðlafólk. Með því vonaðist Airbus eflaust til þess að sýna fram á Emirates hefði gert mistök.

Fjölmiðlaferðin var farin í síðustu viku og samkvæmt heimildum mbl.is var um borð að minnsta kosti einn íslenskur blaðamaður. Á vefsvæði Financial Times má lesa um upplifun eins blaðamanns sem segir að mikil spenna hafi ríkt í hópnum, aðallega vegna þess að dregið var um á hvaða farrými hver fékk að sitja.

Á vef FT segir að flestir 150 blaðamanna hafi verið miklir áhugamenn um flug og flugvélar sem nutu þess til fullnustu að vera með þeim fyrstu í heiminum til að stíga um borð í A350 XWB þotu Airbus.

Ferðin var stutt, aðeins um klukkustund, flogið var frá flugvellinum í Touloluse, þar sem höfuðstöðvar Airbus eru, yfir Pýreneafjöll og lent aftur í Toulouse. „Ég var á meðal þeirra um borð - sat í almennu farrými - og sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að Airbus kynni A350 sem byltingu í flugheiminum þá lítur farþegarýmið eins út og í hverri annarri farþegaþotu,“ skrifar Andrew Parker, blaðamaður FT.

Hann segist hins vegar hafa tekið eftir því hversu hljóðlát vél A350 var, sætin rúmgóð og þægileg og mun betri en sætin í A320 flugvél Airbus. „Margir fjölmiðlamanna virtust hreinlega dýrka A350, alla vega ef marka má hrifningaróp og ákaft lófaklapp bæði við flugtak og lendingu.“

Airbus A350 XWB, MSN5 flugprófunarvélin í Toulouse í dag.
Airbus A350 XWB, MSN5 flugprófunarvélin í Toulouse í dag. Ljósmynd/Airbus
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK