Skammvinn sigurgleði á HM

Brasilíumönnum er spáð góðu gengi á HM í knattspyrnu, bæði …
Brasilíumönnum er spáð góðu gengi á HM í knattspyrnu, bæði meðal sparkspekinga og hagfræðinga. AFP

Rannsókn greinenda fjárfestingabankans Goldman Sachs hefur leitt það í ljós að hlutabréfavísitala í landi sigurvegara Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu hækkar að meðaltali um 3,5% umfram heimsmarkað fyrsta mánuðinn eftir mótið. Aðeins einu sinni hefur það gerst frá árinu 1974 að hlutabréfavísitalan í landi sigurvegaranna hafi ekki hækkað meira en annars staðar þennan fyrsta mánuð.

„Gleðin er hins vegar skammvinn og þegar litið er til áxötunar í eitt ár frá sigri hefur hlutabréfamarkaðurinn ávaxtast um að meðaltali 4% minna en heimsmarkaðurinn,” segir í grein Gísla Halldórssonar, sérfræðings hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, um áhrif HM í knattspyrnu á alþjóðlega verðbréfamarkaði.

Önnur staða er hins vegar uppi þegar litið er til silfurliðsins. Ef tíu seinustu keppnir eru skoðaðar, reyndar fyrir utan HM á Ítalíu 1990, kemur í ljós að hlutabréfamarkaður í landi silfurliðsins hefur skilað verri ávöxtun en heimsmarkaðurinn mánuð eftir keppnina í sjö af níu tilfellum. Meðaltalsávöxtunin er 1,4 prósent. 

Ef litið er til þriggja mánaða eftir keppnina, þá hefur ávöxtunin lækkað um heil 5,6%. Gísli segir að árið 1990 sé undantekning, því eftir þá keppni hafi markaðurinn í Argentínu, sem endaði í öðru sæti, hækkað um hvorki meira né minna en 33%.

Hlutabréf bruggverksmiðja hríðfalla

Áhrif Heimsmeistaramótsins á hlutabréfamarkað í landi sjálfra gestgjafanna virðast vera minni, að sögn Gísla. Þannig hefur hlutabréfaverð í þeim löndum sem hýsa keppnina hækkað um 2,7% að meðaltali umfram heimsmarkaðinn mánuð eftir mót. Árangurinn versnar hins vegar töluvert þegar litið er til þriggja mánaða eftir keppni.

Gísli bendir einnig á að áhrif mótsins á hinar ýmsu atvinnugreinar í Brasilíu séu mismikil. Fjárfestar hafi til að mynda veðjað á að flugbransinn muni hagnast á mótinu í sumar, en hlutabréf Gol, sem er næststærsta flugfélag Brasilíu, hafa hækkað um rúm 19% í verði frá áramótum og 36% seinustu tólf mánuði. Hlutabréf brasilíska kreditkortafyrirtækisins Cielo hafa sömuleiðis hækkað umtalsvert, eða um tæp 40%, í verði seinustu mánuði, enda er talið líklegt að sú atvinnugrein muni njóta góðs af auknum straumi ferðamanna í sumar.

Gísli tekur einnig hlutabréfaverð stærstu bruggverksmiðju landsins, Ambrev, sem dæmi um mikil áhrif HM. Þegar brasilísk yfirvöld ákváðu í vor að hækka skatta á bjór, vegna mótsins, hófst mesta lækkunarhrina félagsins í fimm ár. Þannig að það virðist vera óhætt að segja að HM hafi haft töluverð áhrif á brasilískan hlutabréfamarkað, að minnsta kosti meiri en margir myndu halda.

Deyfð á meðan leikirnir eru í gangi

Þá er útlit fyrir að verðbréfamiðlarar og fjárfestar dragi úr fjárfestingum sínum þegar sjálfir leikirnir eru í gangi. Þannig rifjar Gísli upp rannsókn Evrópska seðlabankans á HM í Suður-Afríku 2010 sem vakti nokkra athygli á sínum tíma. Þar kom meðal annars fram að þegar liðin voru að spila dróst tíðni viðskipta á hlutabréfamarkaði í viðkomandi löndum saman um 45% að meðaltali. Veltan varð jafnframt 55% minni. Þegar mark var skorað dróst síðan fimm prósent til viðbótar úr virkni markaðanna.

Gísli vekur einnig athygli á því að í gegnum tíðina hefur dregið töluvert úr fylgninni á milli ávöxtunar á hlutabréfamarkaði og heimsmarkaði þegar leikir viðkomandi landa eru í gangi.

„Tengslin og fylgni ávöxtunar dragast saman að meðaltali um rúmlega 20%. Það sem gerir þetta sérstaklega áhugavert er að um hádegi, þegar tíðni viðskipta dregst einnig mikið saman, þá eru engin slík tengsl sjáanleg við heimsmarkaðinn,“ bendir Gísli á.

Lélegt gengi = Hlutabréfalækkanir

Hann nefnir einnig áhugaverða rannsókn Seðlabanka Hollands sem leiddi það í ljós að gengi landsliða á mótinu hefði mikil áhrif á fjárfesta á mörkuðum í viðkomandi löndum. Brottfall af mótinu auki þannig líkurnar á að fjárfestar undirverðleggi hlutabréf.

Að sama skapi sýna niðurstöður rannsóknar, sem birtar voru í The Journal of Finance árið 2007, að falli lið úr leik á HM, þá lækki hlutabréfamarkaðurinn í viðkomandi landi að jafnaði um 0,5% næsta dag.

„Áhrifin má sömuleiðis sjá í öðrum stórum íþróttagreinum og virðast þau hafa meiri áhrif á minni fyrirtæki en þau stærri. Við vitum ekki til þess að sambærilegar rannsóknir hafi verið gerðar á Íslandi en áhugavert væri að skoða þróun innlendra markaða við gengi landsliða okkar og þá kannski ekki síst í handbolta,“ segir Gísli að lokum.

VÍB fjallar um fjármálin á HM

Frétt mbl.is: Milljarða fjárfestingar vegna HM

Frétt mbl.is: Hagfræðingar spá Brasilíu sigri

Frétt mbl.is: Goldman spáir Brasilíu sigri á HM

Verðbréfamiðlarar, eins og aðrir, fylgjast grannt með stöðu mála á …
Verðbréfamiðlarar, eins og aðrir, fylgjast grannt með stöðu mála á HM. AFP
Allt ætlaði um koll að keyra þegar Alsír vann góðan …
Allt ætlaði um koll að keyra þegar Alsír vann góðan 4-2 sigur á Suður-Kóreu í gærkvöldi. Fagnaðarlætin voru gríðarleg. AFP
Cristiano Ronaldo í eldlínunni á HM.
Cristiano Ronaldo í eldlínunni á HM. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK