Fríverslunarsamningur við Kína tekur gildi

Íslenski og kín­verski fán­inn.
Íslenski og kín­verski fán­inn. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Í dag tók í gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína, en hann var samþykktur af ríkisstjórninni í janúar á þessu ári. Viðræðurnar, sem hófust árið 2007 og lauk í fyrra, munu hafa áhrif á flesta vöruflokka, en samkvæmt honum falla tollar niður á iðnaðarvörur og sjávarafurðir þegar við gildistöku samningsins. Jafnframt munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðarvörum. Tollar af tilteknum afurðum munu lækka skref fyrir skref yfir fyrirfram tilgreindan tíma, gagnvart innflutningi á íslenskum upprunavörum til Kína.

Nær til meirihluta af vöruviðskiptum landanna

Við undirritun samningsins var sagt frá því að hann myndi ná til um 99,8% af heildarútflutningi Kína til Íslands, en á móti munu Kínverjar fella niður alla tolla af 7.380 vörum frá Íslandi, eða sem nemur 81,6% af íslenskum innflutningi til landsins. Þar á meðal eru sjávarútvegsvörur. Þegar samningurinn verður genginn fullkomlega í gildi verða svo engir tollar á 96% af vörum samkvæmt tollskrárnúmerum, eða 100% miðað við viðskiptamagn.

Þarf að vera flutt beint inn frá Kína

Til þess að vara fái niðurfellingu á tollum þarf hún að vera flutt beint á milli landanna tveggja, en þó er umskipun leyfilega. Ef vara er keypt t.d. í Evrópu og send þaðan, en er upprunalega frá Kína, er ekki hægt að nýta samninginn.

Heildarvöruviðskipti ríkjanna á tímabilinu 2001 til 2012 hafa numið 7 til 44 milljörðum króna á ári, mest árið 2008, en það helgaðist af miklu leyti til af sölu flugvéla frá Íslandi til Kína. Hlutfall vöruviðskipta við Kína af heildarvöruviðskiptum Íslands hefur aukist á þessu tímabili, en það var 1,7% árið 2001 en fór hæst upp í 4,5% árið 2008. Tölur fyrir árið 2012 gefa til kynna að innflutningur á vörum frá Kína sé tæplega sexfaldur á við útflutning frá Íslandi til Kína.

Sjávarafurðir stærst í útflutningi

Heildarútflutningur til Kína hefur aukist mikið á þessum tíma, eða úr 905 milljónum upp í 7,6 milljarða árið 2012. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er helsta útflutningsvara Íslands til Kína sjávarafurðir, en þær telja fyrir meira en 90% af heildarvöruútflutningnum. Þar af eru karfi og grálúða stærstu flokkarnir. Þá hefur nokkuð verið flutt út af loðnu, rækju, skelfiski og botnfiski. Makríll var þá stærsti sjávarafurðaflokkurinn árið 2011, en þá flutti Ísland út fyrir 1,8 milljarða króna til Kína af honum.

Hlutur landbúnaðarafurða í útflutningi til Kína var lítill sem enginn en á síðustu árum hefur hafist útflutningur á sauðfjárafurðum. Í flokki iðnaðarvöru var m.a. flutt út kísiljárn og rafeindavogir

Innflutningur fimmfaldast á áratug

Innflutningur frá Kína hefur fimmfaldast á síðasta áratug og nam árið 2011 rúmum 35 milljörðum, samanborið við 6 milljarða árið 2002. Er hann nú orðinn 7,4% af heildarinnflutningi til Íslands árið 2011.

Stærstu innflutningsvöruflokkarnir eru ýmsar unnar vörur á borð við húsgögn, fatnað og skó, vélar og samgöngutæki t.d. tölvur, rafeinda- og fjarskiptabúnaður. Einnig flytur Ísland inn margvíslegar framleiðsluvörur t.d. járn og málm ásamt ólífrænum kemískum efnum til efnaiðnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka