Þrátt fyrir að enn sé vika eftir af Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Brasilíu eru margir, að minnsta kosti hagfræðingar, farnir að huga að næsta móti, sem verður haldið í Rússlandi árið 2018.
HM í Brasilíu er dýrasta heimsmeistarakeppni sem haldin hefur verið, en talið er að heildarkostnaður vegna mótsins verði um 1.600 milljarðar króna. Hins vegar er reiknað með að kostnaður vegna HM í Rússlandi eftir fjögur ár verði um 2.000 milljarðar króna.
Ráðherra íþróttamála í Rússlandi segist hafa miklar áhyggjur af framkvæmdum við alla leikstaði mótsins, enda hafi allar kostnaðaráætlanir tekið töluverðum breytingum undanfarin ár.
Í nýrri grein sérfræðinga VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, kemur fram að árið 2010 hafi Vladímir Pútín, forseti Rússlands, áætlað að heildarkostnaðurinn næmi um 1.100 milljörðum króna. Dmitri Medvedev, forseti Rússlandi, hækkaði síðan þá tölu í 2.300 milljarða, að lágmarki, en nú hefur hún verið lækkuð í um 2.000 milljarða, eins og áður sagði.
„Til samanburðar er reiknað með að heildarkostnaður heimsmeistaramótsins í Brasilíu verði um 1.600 milljarðar króna, sem er þreföld sú upphæð sem gefin hefur verið upp vegna mótsins í Suður-Afríku 2010,“ segir í greininni.
Þar er þó jafnframt bent á að samanburður á kostnaði við stórmót geti verið nokkuð villandi. Misjafnt sé til dæmis hversu umfangsmiklar framkvæmdir ákveðið er að ráðast í. Þá getur töluverður munur verið á nauðsynlegum framkvæmdum við innviði viðkomandi landa og misjafnt hversu stór hluti sé fjármagnaður af einkaaðilum, en ekki ríkisvaldinu.
Í greininni kemur fram að skipuleggjendur mótsins í Rússlandi geri ráð fyrir að helmingur af kostnaðinum falli á ríkið, 15% á rússnesk héruð og borgir og 35% verði framkvæmdir af hálfu einkaaðila. Alls verður ráðist í hátt í 300 framkvæmdir, meðal annars tólf leikvanga, 113 æfingavelli, sem kosta um fjóra milljarða króna, og 62 hótel.
Auk þess er gert ráð fyrir meiriháttar framkvæmdum við ellefu flugvelli, en samkvæmt kröfum Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA má ekki vera lengra en hundrað kílómetrar frá stórum flugvelli að leikvangi. Sett hafa verið lög sem eiga að tryggja greiðslu allt að 2.400 milljarða króna vegna mótsins.
Auk þess sem FIFA gerir kröfur um nútímalegar aðstæður og vandaða innviði er rík áhersla lögð á að leikvangarnir verði sem allra glæsilegastir. Lágmarkssætafjöldi er þrjátíu þúsund sæti og líkt og í Brasilíu uppfylla þeir leikvangar sem fyrir eru í Rússlandi ekki strangar kröfur FIFA.
„Tveir leikvangar verða lagfærðir, í Yekaterinburg og þjóðarleikvangurinn í Moskvu, og tíu nýir byggðir. Kostnaður er talinn nema um 780 milljörðum króna, en upphaflega áætlanir hljóðuðu upp á 320 milljarða króna. Dýrastur verður leikvangurinn í St. Pétursborg, en hann verður dýrari en þjóðareikvangurinn í Brasilíuborg og þar með sá næst dýrasti í heimi, á eftir Wembley í London.
Sætafjöldi í efstu deild eykst með framkvæmdunum um þriðjung en í vetur var sætanýting þar einungis 60% að meðaltali,“ segir í grein sérfræðinga VÍB.
Sérfræðingarnir segja að erfitt sé að ræða um kostnað vegna HM í Rússlandi án þess að rifja upp Vetrarólympíuleikana sem haldnir voru í Sotsjí fyrr á árinu. Mikið hafi til að mynda verið rætt um mikinn kostnað vegna leikanna.
„Eins og áður segir er samanburður þó ekki alltaf sanngjarn. Heildarkostnaður við Ólympíuleikana hefur verið sagður um 5.800 milljarðar króna, þrefaldur kostnaður HM í Brasilíu, en þar af fóru „aðeins“ 13%, eða 760 milljarðar króna, í aðstöðu vegna leikanna sjálfra.
Fjárfestingar vegna vega- og lestakerfis og annarra innviða námu um þriðjungi, eða 1.900 milljörðum króna. Sá ríflega helmingur sem eftir stendur er sagður vera einkaframkvæmd á svæðinu.
Það er þó óumdeilt að Ólympíuleikarnir fóru langt fram úr fjárhagsáætlunum og það virðist stefna í það sama á HM 2018,“ segja sérfræðingarnir.
Fréttir mbl.is: