Eigendur Lifandi markaðar hafa óskað eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið rekur þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru einnig veitingastaðir. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 4. júlí og hefur skiptastjóri auglýst eftir kröfum í búið.
Vb.is fjallar um málið, en sjóður í stýringu Auðar Capital var eigandi félagsins. Auður sameinaðist svo Virðingu í byrjun þessa árs. Þá kemur fram að samkvæmt ársreikningum hafi uppsafnað tap síðustu tveggja ára verið rúmlega 90 milljónir og að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um 30 milljónir.
Haft er eftir Jóhanni H. Hafstein skiptastjóra að ekki sé útilokað að nýir eigendur komi að rekstrinum, en staðirnir þrír eru enn opnir.