Pétur kaupir Höfðatorgslóðir af Íslandsbanka

Pétur Guðmundsson hefur keypt hlut Íslandsbanka í Höfðatorgi ehf., BE …
Pétur Guðmundsson hefur keypt hlut Íslandsbanka í Höfðatorgi ehf., BE eignum ehf. og Höfðahóteli ehf., en félögin koma að uppbyggingu á Höfðatorgsreitnum. Mynd/mbl.is

Pétur Guðmundsson, forstjóri og eigandi verktakafyrirtækisins Eyktar, hefur keypt hlut Íslandsbanka í félögunum Höfðatorg ehf., BE eigna ehf. og Höfðahótela ehf., en þau eiga reitina við Höfðatorg sem eru í byggingu eða eru enn óbyggðir. Pétur var áður eigandi að 27,5% hlut í félögunum eftir skuldauppgjör sitt við bankann og aðra kröfuhafa.

Við Höfðatorg er nú fullbyggður turn og skrifstofubygging sem meðal annars hýsir skrifstofur Reykjavíkurborgar. Þær eignir voru áður í eigu Péturs og Íslandsbanka, en voru seldar fyrir um 16 milljarða til fjárfestingafélagsins FAST-1.  

Hótelturn og þrjár aðrar byggingar á Höfðatorgi

Á hinum reitunum er ýmist vinna í gangi við uppbyggingu eða áform um frekari framkvæmdir. Á reit sem er í eigu Höfðahótela ehf. er unnið að byggingu sextán hæða hótels sem rekið verður af Íslandshótelum. Þar verða 342 herbergi, en heildarfjárfesting er metin á rúma átta milljarða.

Fyrir ofan þann reit eru þrír reitir í eigu Höfðatorgs ehf., en á einum þeirra er áformað að byggja tólf hæða turn með um 80 íbúðum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2016, en einnig er til skoðunar að byggja næsta áfanga bílakjallarans undir Höfðatorgi með 175 stæðum.

Á reitunum tveimur sem liggja suðaustan megin á Höfðatorgsreitunum, á horni Bríetartúns og Katrínartúns, er svo áformað að reisa tvær 9 hæða byggingar, en samkvæmt deiliskipulagi er heimild fyrir íbúðabyggð eða skrifstofuhúsnæði í annarri byggingunni, en skrifstofuhúsnæði í hinni.

BE eignir ehf. eiga svo eignirnar við Borgartún 1 og 3 og við Þórunnartún 2.

Ekki hluti af skuldauppgjöri

Pétur segir að kaupin hafi gengið í gegn fyrir nokkrum mánuðum, en hann gefur ekki upp hvert kaupverðið hafi verið. Aðspurður hvort þetta hafi verið hluti af skuldauppgjöri hans og Eyktar við Íslandsbanka segir hann að þetta hafi verið bein sala. „Maður hefur aldrei fengið neitt hjá banka [öðruvísi] en að borga fyrir það og það hefur ekkert breyst,“ segir Pétur.

Eykt hóf uppbyggingu á Höfðatorgsreitunum, en í hruninu hækkuðu skuldir þess mikið og í lok árs 2011 var nauðasamn­ing­ur við kröfu­hafa samþykkt­ur. Með hon­um eignaðist Íslands­banki, sem var aðal­kröfu­haf­inn, 72,5% í Höfðatorgi, en Eykt 27,5%, meðal ann­ars vegna áfall­ins bygg­ing­arkostnaðar við verk­efnið. Í heild voru um 15 millj­arðar af­skrifaðir á Höfðatorg í end­ur­skipu­lagn­ingu fé­lags­ins.

Eignirnar metnar á um 2 milljarða

Félagið fékk seinna nafnið HTO og var selt til FAST-1. Fyrrnefndar eignir voru þá teknar út úr félaginu og fluttar í nýju félögin Höfðahótel, BE eignir og Höfðatorg (sama nafn og eldra félagið). Úr ársreikningi HTO má sjá að bókfært virði þeirra eigna sem Íslandsbanki hefur nú selt er um 800 milljónir króna, auk þess sem óbyggt land er metið á 1,24 milljarða, samtals rúmlega 2 milljarðar.

Utan óbyggðs lands eru eignirnar metnar á 1,5 milljarð í fasteignamati fyrir árið 2015, en stærð húsnæðisins er samtals rétt tæplega 10 þúsund fermetrar.

Við Höfðatorg rís nýtt hótel, en það verður það stærsta …
Við Höfðatorg rís nýtt hótel, en það verður það stærsta á landinu. Eggert Jóhannesson
Eykt reisti áður turninn og skrifstofubygginguna sem hýsir skrifstofur Reykjavíkur …
Eykt reisti áður turninn og skrifstofubygginguna sem hýsir skrifstofur Reykjavíkur á Höfðatorgsreitnum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK