Norrænu ríkin Ísland, Danmörk, Færeyjar, Grænland, Noregur og Svíþjóð undirrituðu í dag tvíhliða samninga um upplýsingaskipti í skattamálum við Hong Kong í Kína. Samningarnir voru undirritaðir í sendiráði Íslands í París.
Frá árinu 2007 hefur á vegum norrænu ráðherranefndarinnar starfað norrænn stýrihópur sem vinnur að gerð upplýsingaskiptasamninga í skattamálum við bankaleyndar- og lágskattaríki. Með samningunum sem nú eru í höfn við Hong Kong hafa 44 upplýsingaskiptasamningar verið gerðir frá því að verkefnið hófst. Samningarnir við Hong Kong heimila skattyfirvöldum í Hong Kong og á Norðurlöndunum að óska eftir og taka við skattupplýsingum um fyrirtæki og einstaklinga í löndunum.
Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir jafnframt að Norðurlöndin og Hong Kong skuldbindi sig til þess að fylgja skilyrðum Global Forum um gagnsæi og upplýsingaskipti og til að berjast gegn skattaundanskotum á heimsvísu.
Allir samningarnir eru tvíhliða og koma til framkvæmda þegar stjórnvöld beggja ríkja hafa fullgilt þá samkvæmt innlendum rétti.