EFTA-dómstóllinn mun gefa ráðgefandi álit sitt í dómsmáli sem snýr að framkvæmd verðtryggingarinnar hér á landi þann 28. ágúst næstkomandi. Um stórt mál er að ræða, enda er þetta fyrsta málið af þessu tagi sem fer til EFTA-dómstólsins og þar með í fyrsta sinn sem það mun reyna á verðtryggingarákvæðin fyrir dómstólum.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði tveimur málum til EFTA-dómstólsins sem varða verðtrygginguna undir lok seinasta ár. Málin voru tekin til meðferðar hjá dómstólnum í sumar, hið fyrra í apríl en hið síðara í júní.
Í fyrra málinu, sem EFTA-dómstóllinn mun gefa ráðgefandi álit í þann 28. ágúst, eru fimm spurningar lagðar fyrir dómstólinn, þar á meðal hvort verðtryggð lán séi í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán og einnig hvort verðtryggingin samræmist þá tilskipunum sambandsins um óoréttmæta skilmála í neytendasamningum.
Þegar EFTA-dómstóllinn hefur gefið álit sitt verða málin flutt fyrir íslenskum dómstólum. Engin fordæmi eru fyrir því að íslenskir dómstólar fari gegn áliti EFTA-dómstólsins. Þá verður þetta, eins og áður sagði, í fyrsta sinn sem reynir á verðtryggingarákvæðin fyrir dómstólum.
Fyrra málið höfðaði Gunnar V. Engilbertsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, á hendur Íslandsbanka vegna verðtryggðs húsnæðisláns upp á 4,4 milljónir króna sem var tekið árið 2007.
Héraðsdómur féllst upphaflega á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun á einni Evróputilskipun, sem var innleidd árið 1993, og snýr að óréttmætum skilmálum í neytendasamningum. Íslandsbanki kærði úrskurðinn hins vegar til Hæstaréttar, sem komst þó að þeirri niðurstöðu í októbermánuði í fyrra að leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á fimm spurningum.
Þeir lögmenn sem mbl.is ræddi við telja ólíklegt að EFTA-dómstóllinn muni komast að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin sé beinlínis ósanngjarn samningsskilmáli. Er meðal annars vísað í dómaframkvæmd dómstólsins, sem segir að samningsskilmáli sem eigi sér stoð í landsrétti geti ekki verið ósanngjarn. Verðtryggingin hefur lengi átt sér stoð í landsrétti.
Þá getur farið svo að dómstóllinn setji það í hendur Hæstaréttar Íslands að meta hvort verðtryggingin sé ósanngjörn sem samningsskilmáli. Með því muni þó fylgja leiðbeiningar um til hvaða þátta eigi að horfa við slíkt mat.
Íslensk stjórnvöld hafa bent á í greinargerðum sínum í málunum að verðtryggingin sé algjör lykilþáttur í íslensku efnahagslífi og þess vegna verði að gera ráð fyrir að neytendur skilji eðli hennar. Þau telja jafnframt að hætt sé við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum, bæði fyrir íslenskan fjármálamarkað og stofnanir, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin sé ekki í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins.
Ekki hefur verið tilkynnt hvenær EFTA-dómstóllinn mun gefa álit sitt í síðara málinu. Í því máli er einni spurningu bætt við. Þar er spurt hvort lánveitanda sé heimilt á lántökudegi að miða við 0% verðbólgu í lánasamningi þegar heildarlántökukostnaður ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar er reiknaður út. Meiri óvissa ríkir um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í því máli, að sögn viðmælenda mbl.is.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar verður leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þessum fimm spurningum:
Sjá fréttir mbl.is: