Norska hagstofan spáir því að fjárfesting í olíuiðnaðinum muni lækka um 15% á næsta ári. Rune Bjerke, forstjóri stærsta banka Noregs, DNB, ræddi framtíðarhorfur iðnaðarins í erindi sínu á olíu- og gasráðstefnunni ONS sem fram fer í Stavangri í Noregi þessa stundina. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra er einnig á ráðstefnunni og fundaði hún með orku- og olíumálaráðherra Noregs í gær.
„Of miklar sveiflur eru aldrei af hinu góða. Eitt ár með niðursveiflu þarf ekki endilega að vera neikvæð fyrir iðnaðinn ef árin þar á eftir eru mjög jákvæð. Margir búast við því að uppsveifla fylgi í kjölfarið á árunum 2016 og 2017,“ segir Bjerke.
Hann segist ekki áhyggjufullur yfir langtímaþróuninni. „Ég sé fram á góða tíð hjá olíu- og gasframleiðendum. Á sama tíma sé ég mikil tækifæri innan endurnýtanlegrar orku og bættu nýtingarhlutfalli á orkugjöfum.“ Bjerke neitar fyrir að Norðmenn séu of háðir olíunni þrátt fyrir að fjárfesting í olíuiðnaðinum hafi aldrei verið stærra hlutfall af landsframleiðslu Norðmanna. „Nei ég held við séum ekki of háðir olíunni, ekki þegar við lítum á það hvernig við höfum farið með verðmætin sem við sköpum. Það gefur okkur möguleika til að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum.“
Í erindi sínu á ráðstefnunni sagði Bjerke lága vexti hafa áhrif á fyrirtæki í olíuvinnslu um allan heim. „Óvissa um framtíðina eykur áhersluna á skammtímagróða. Þetta á ekki bara við um olíuiðnaðinn heldur flesta iðnaði í heiminum. Þú græðir lítið á því í dag að ræða um langtímafjárfestingar,“ sagði Bjerke.
Sjá frétt Dagens næringsliv.