Franski verðbréfamiðlarinn fyrrverandi, Jérôme Kerviel, sem tókst að tapa fimm milljörðum evra fyrir hönd bankans sem hann starfaði hjá, Société Générale, var nýverið látinn laus úr fangelsi. Það fyrsta sem hann gerði var að hringja í mömmu.
Kerviel, sem er 37 ára að aldri, sat inni í fjóra mánuði fyrir fjársvik af þeim þremur árum sem honum var gert að sitja á bak við lás og slá en honum tókst nánast að knésetja franska bankann með áhættusömum viðskiptum árin fyrir efnahagshrunið 2008. Hann segist vera einföld sál sem hafi verið fórnarlamb græðgi á sínum tíma.
Er venjulegur maður sem þráir líf meðal-Jónsins
Hann sagði við fréttamenn að hann væri yfirmáta hamingjusamur með að vera laus úr fangelsi og hann vildi byggja upp líf sitt að nýju. Hann þrái venjulegt líf með fólkinu sem hann elskar og stofna fjölskyldu. Hann vilji fá að njóta þess að lifa og bætir við: loksins.
Stjórnendur SocGen gagnrýndu Kerviel og störf hans harðlega á sínum tíma og sögðu hann glæpamann. Kerviel heldur því hins vegar fram að þeir hafi vitað hvað hann var að fást við og þeir hafi snúið blindu auga að störfum hans svo lengi sem peningarnir flæddu inn.
Á sama tíma og verðbréfamiðlarinn rakaði saman milljörðum fyrir bankann í höfuðstöðvum hans í fjármálahverfinu La Défence bjó hann í lítilli íbúð í úthverfi Parísar og tók lestina um helgar á Bretagne til að heimsækja móður sína.
„Ég er venjulegur maður. Ég er ekki brjálaður,“ sagði Kerviel meðan á rannsókn stóð á svikum hans.
Hafið þið séð íbúðina mína?
„Ég græddi ekki milljónir og ég ók ekki á Porsche,“ sagði Kerviel en hann fékk 50 þúsund evrur (7,7 milljónir króna) í laun á ári auk tuga þúsunda evra í bónusa. Upp komst um brellur hans í janúar 2008. „Hafið þið séð íbúðina mína? 45 fermetrar, engin málverk eftir meistarana. Ikea-húsgögn,“ bætir hann við.
Ýmsir hafa velt upp þeirri spurningu hvort ástæðan að baki svikanna hafi verið sú að ungi maðurinn hafi viljað sanna sig í starfi. Sýna að hann gæti staðið þeim fyllilega á sporði sem græddu á tá og fingri á verðbréfaviðskiptum. Margir þeirra komu úr þekktum og dýrum einkaskólum og fóru mikinn í þessum heimi sem Kerviel starfaði í.
Jérôme Kerviel var dæmdur í 5 ára fangelsi, þar af 2 ár skilorðsbundin, fyrir umfangsmikil fjársvik. Hann var fundinn sekur um skjalafals og tölvuglæpi og um að hafa misnotað traust vinnuveitanda síns. Þessi afbrot framdi hann til að reyna að fela að hann gerði í heimildarleysi framvirka samninga fyrir hönd bankans á árunum fyrir hrun, sem metnir voru á 50 milljarða dala.
Minnir á Tom Cruise í útliti
Jérôme Kerviel fæddist í smábænum Pont l'Abbe á Bretagne en faðir hans var járnsmíðakennari og móðir hans hárgreiðslukona. Hann nam hagfræði og fjármál í háskólum í Quimper, Nantes og Lyon, en að sögn kennara þar útskrifaðist Kerviel með ágætar, en samt sem áður ekki framúrskarandi, einkunnir.
Hann hóf störf hjá bankanum Société Générale árið 2000 og fimm árum síðar fékk hann stöðuhækkun á verðbréfasviði bankans þar sem honum var falið að eiga viðskipti með evrópsk verðbréf. Félagarar hans frá þessum tíma lýstu honum sem rólegum einfara. Mörgum þykir Kerviel minna um margt á kvikmyndastjörnuna Tom Cruise í útliti.
Söngkonan Alicia Keys er í miklu eftirlæti hjá Kerviel og hann segist vera mikill kvikmyndaaðdáandi. Hann hefur jafnvel viðurkennt að hafa grátið þegar myndinni Avatar lauk svo mikil áhrif hafði ævintýramyndin á Kerviel.
Tapaði gildunum sem hann ólst upp við í fjármálaheiminum
Hann sat í gæsluvarðhaldi í 38 daga eftir að málið kom upp í byrjun árs 2008 og í kjölfarið hóf hann störf hjá litlu hugbúnaðarfyrirtæki í úthverfi Parísar. Áður en réttarhöldin yfir honum hófust sagðist hann vonast til þess að mál hans gæti kennt fólki ýmislegt hvað varðar ástæður efnahagshrunsins og hvað hafi verið í gangi í fjármálafyrirtækjum heims árin á undan.
„Virðing fyrir vinnunni, samstaða og heiðarleiki eru gildi sem ég ólst upp við. En þegar ég varð verðbréfamiðlari tapaði ég þessum gildum að hluta.“
Til þess að vekja athygli á máli sínu gekk hann frá Róm til Parísar fyrr á þessu ári og hlaut meðal annars áheyrn hjá páfa.
Nú er að hefjast nýr kafli í lífi Jérôme Kerviel og ætlar hann sér að lifa einföldu fjölskyldulífi í framtíðinni. En næstu mánuði hið minnsta þarf hann að vera með rafrænt ökklaband þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum hans og eins má hann ekki fara að heiman frá klukkan 20.30 á kvöldin til sjö á morgnana.