Fyrrverandi heimsmeistari hannar fötin

Martti Kellokumpu, nýr yfirhönnuður Zo-On.
Martti Kellokumpu, nýr yfirhönnuður Zo-On. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Finnskur hönnuður og fyrrverandi heimsmeistari á skíðum hefur verið ráðinn yfirhönnuður íslenska fyrirtækisins Zo-On. Hann segir skíðamennskuna hafa kennt sér mikilvægi góðs hlífðar- og útivistarfatnaðar og ætlar sér stóra hluti með vörumerkið.

Martti Kellokumpu var fyrsti hönnuðurinn sem ráðinn var til Zo-On árið 1994 og starfaði fyrir fyrirtækið í um fjögur ár. Síðan þá hefur hann haldið góðu sambandi við eigenda þess, Jón Erlendsson, og margoft komið í heimsókn á klakann. Hann ætlar þó ekki að flytja til landsins heldur verður áfram í Finnlandi þar sem hann er einnig yfirhönnuður fyrirtækisins One Way, sem framleiðir útivistarfatnað.

Hannar ólympíubúning Finna

Kellokumpu varð heimsmeistari í hólasvigi árið 1987, en það gengur út á að skíða niður hól­um hlaðna brekku auk þess að taka stökk á ákveðnum stöðum. Ein­kunn er þá gef­in út frá því hvernig kepp­end­ur skíða niður hól­ana, hvernig þeir út­færa stökk sín og hve hratt þeir fara niður. Hann keppti einnig á vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada árið 1988 en lét skíðin á hilluna eftir það og skráði sig í Listaháskólann í Helsinki þar sem hann lærði bæði fata- og iðnaðarhönnun. Íþróttaandinn hefur þó greinilega setið í honum þar sem hann hann hefur hannað fatnað ólympíuliðs Finna undanfarin ár.

Hann segist alltaf hafa haft áhuga á hönnun enda fylgi það fjölskyldunni. „Móðir mín var hönnuður og stofnaði m.a. ásamt föður mínum fyrirtæki sem framleiddi skíðafatnað og naut mikilla vinsælda í Finnlandi á níunda áratugnum. Það hafði töluverð áhrif á mig þegar ég hóf námið,“ segir hann. Eftir útskrift hefur Kellokumpu komið víða við og starfaði meðal annars sem yfirhönnuður finnska fyrirtækisins Halti sem framleiðir útivistar- og skíðafatnað. Þá hefur hann unnið fyrir fjölda annarra fyrirtækja víða um heim og hlaut verðlaunin „Fatahönnuður ársins“ í Finnlandi árið 2006.

Slípa hönnunarlínuna til

Hann segir bakgrunninn í skíðaíþróttinni hafa opnað fyrir sér margar dyr og gert honum auðveldara að nálgast fólk í bransanum. „Það sannar að ég skilji hvernig fötin þurfa að virka. En það er auðvitað ekki nóg heldur þurfti ég ennþá að sanna að ég kynni að hanna.“ 

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér breytingar á hönnunarlínu Zo-On segir hann það hafa legið fyrir við ráðningu hans að það nokkurra breytinga væri þörf. „Við höfum góða heildarlínu en það má fríska aðeins upp á það og hafa línurnar þannig að þær höfði fremur til ákveðinna markhópa og slípa betur til,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið stefni einnig á erlenda markaði og huga þurfi að því.

Íslendingar og Finnar líkir

Hann segir hugsunina vera að blanda saman nýrri hönnun við þau efni sem reynst hafa fyrirtækinu vel. Innblásturinn segir hann koma víða að en viðurkennir kíminn að tímaþröng virki þar oftast best. „Ég fer einnig á margar sýningar og svo er allsgnægt upplýsinga á Internetinu en þú þarft að meta þær og sía, þar sem það gengur ekki að hafa allt í hverri línu.“

Markaðurinn á Íslandi og Finnlandi er líkur að því leyti að loftslagið er svipað og virðist smekkur manna vera það einnig. Hann nefnir að bjartir og sterkir litir hafi verið sérstaklega vinsælir í útivistarfatnaði þó tískan sé ef til vill að færast í átt að náttúrulegri litum. Fyrsta lína Kellokumpu kemur líklega í búðir á næsta ári.

Jón Erlendsson, eigandi fyrirtækisins. ZO-ON.
Jón Erlendsson, eigandi fyrirtækisins. ZO-ON. Eggert Jóhannesson
Kellokumpu er fyrrverandi heimsmeistari í hólasvigi.
Kellokumpu er fyrrverandi heimsmeistari í hólasvigi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK