Niðurlægður af sérstökum saksóknara

Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi á mánudag.
Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi á mánudag. Þórður Arnar Þórðarson

 „Það er í þessu máli eins og öllum öðrum sem ég hef lent í gagnvart þessu embætti. Það er alveg sama hvað maður segir. Þú skalt vera sekur,“ sagði Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, við lok munnlegs málflutnings í máli sérstaks saksóknara gegn honum og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, sem fór fram fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur í dag.

Með þessum orðum vísaði hann til þess að málið, sem upphaflega hófst árið 2010, snerist þá um markaðsmisnotkun, hafi á miðri leið breytt um stefnu og orðið að máli sem nú snúist um bókhald og umboðssvik. „Það er búið að setja mikla peninga og fjölda starfsfólks í þetta mál á vegum þessa embættis,“ sagði hann.

Í málinu tel­ur ákæru­valdið að veit­ing sjálf­skuld­arábyrgðar­ bank­ans á lána­samn­ing­um af­l­ands­fé­lag­anna Em­penna­ge Inc. og Zim­hamCorp við Kaupþing, sem af­greidd­ var á milli funda lána­nefnd­ar, hafi brotið í bága við lána­regl­ur bank­ans og seg­ir í ákæru að eng­ar und­ir­liggj­andi ábyrgðir hafi verið fyr­ir lán­un­um. Fé­lög­in voru skráð á Panama og héldu utan um kauprétt starfs­manna Lands­bank­ans. Hljóðaði ábyrgðin upp á 6,8 millj­arða króna. Upp­haf­lega var lánið í tveim­ur fé­lög­um, þ.e. Em­penna­ge Inc. og Zim­hamCorp. og skipt­ust 6,8 millj­arðarn­ir þeirra á milli. Síðar var lán­inu hins veg­ar al­farið komið yfir í fyrr­nefnt fé­lag.

Hver er raunveruleikinn?

„Eftir að hafa hlýtt á málflutning saksóknara í morgun varð mér hugsað til atviks sem gerðist fyrir 30 árum þegar ég var ungur lögfræðingur,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, í ræðu sinni í morgun. „Þá var skjólstæðingur minn að sækja um lán hjá Landsbanka Íslands, sem þá var ríkisbanki. Hann rak fyrirtæki og lét búa til skjal í töflu fyrir sig sem sýndi hvað reksturinn hans væri góður. Þetta var allt stutt gögnum um sambærileg fyrirtæki,“ sagði hann. „Þá hittum við fyrir Sverrir Hermannsson, þáverandi bankastjóra. Hann leit yfir blaðið og sagði svo: „En hver er raunveruleikinn?“

„Það er það sem þetta mál snýst um. Hver er raunveruleiki sakargifta?“ sagði Sigurður í ræðu sinni í morgun og benti á að málið snérist um kaupréttarfyrirkomulag Landsbankans, sem í gildi hafði verið frá árinu 2000, þegar bankinn var ríkisbanki, og allt þar til hann var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu árið 2008. Kaupréttarfyrirkomulag sem hafi sparað bankanum umtalsverða fjármuni og hvorki Sigurjón né Sigríður Elín hafi komið á fót.

Fjártjón liggur ekki fyrir

Hann sagði ákæruvaldið hafa á öllum stigum málsins getað látið meta fjártjónið sem varð af veittum ábyrgðum, en hafi hins vegar látið það ógert. „Það var ekki mannað sig upp í að leggja fram útreikninga sem sönnunargagn,“ sagði hann. „Saksóknari sagði hér áðan að ákærðu hefðu verið raunveruleikafirrt í störfum sínum. Ég hef hins vegar ekki heyrt jafn raunveruleikafirrtan málflutning,“ sagði hann og benti ítrekað á að bankinn hefði stofnað þessi félög til þess að verja sig fyrir gengisáhættu. „Það er andskoti bölvað að halda því fram að með þessu hafi ákærðu haft einhvern ásetning til þess að tryggja eigin hagsmuni,“ sagði Sigurður.

Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, hafnaði því að lánareglur Landsbankans hefðu verið brotnar með einum eða öðrum hætti. Hún sagði tvo kosti hafa verið í stöðunni; Að fjármagna kaupréttarsamningana innan bankans eða utan. Hér var það gert með láni frá Kaupþingi og benti Helga á að hlutabréfin sjálf hafi legið til tryggingar láninu. „Þarna var trygging ofan á tryggingu,“ sagði hún og vísaði þannig til vitnisburðar Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra útlána hjá Kaupþingi. Fyrr í dag vísaði Sigurður, verjandi Sigurjóns, til vitnisburðar Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings, sem sagði Kaupþing hafa verið tilbúið að lána Landsbankanum en um ábyrgðina hefði verið beðið til þess að hafa bæði belti og axlabönd í málinu.

„Málið er byggt á misskilningi ákæruvaldsins,“ sagði Helga og bætti við að lánareglurnar, sem saksóknari heldur fram að hafi verið þverbrotnar, hefðu verið rammi fyrir útlánaheimildir annarra starfsmanna en lánanefndar. „Reglurnar eru skrásetning á heimildum annarra. Lánanefndin var ekki bundin af þessum reglum og þeim verður því ekki beitt sem mælistiku á það hvort þau hafi misnotað aðstöðu sína.“

Í „fangelsi“ frá 2010

Þá sagði verjandi Sigurjóns í lokin að færi svo ólíklega til að hannyrði sakfelldur fyrir umboðssvik gæti ekkert réttlátt fimm til sex ára refsingu líkt og krafist er í málinu. „Hann er nánast búinn að vera í fangelsi hjá sérstökum saksóknara frá árinu 2010 þegar hann var kallaður úr sumarfríi með fjölskyldunni í skýrslutökur,“ sagði hann. „Þá var brýnt að niðurlægja hann með því að láta hann ganga á sólbjörtu síðdegi yfir á lögreglustöð með númer á brjósti til þess að hægt væri að taka myndir af þessum ótínda glæpamanni.“

Frétt mbl.is: Bankastjóri dofinn í starfi

Frétt mbl.is: Í rúminu með vinkonu eiginkonunnar

Frétt mbl.is: „Vorum að draga úr áhættu“

Elín Sigfúsdóttir og Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi hennar, í Héraðsdómi …
Elín Sigfúsdóttir og Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi hennar, í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Þórður Arnar Þórðarson
Frá héraðsdómi.
Frá héraðsdómi. Þórður Arnar Þórðarson
Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason, skjólstæðingur Sigurðar, í Héraðsdómi …
Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason, skjólstæðingur Sigurðar, í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK