Gunnar: Það er ekkert sem bendir til brots

„Það eru engin gögn sem hafa komið fram sem gefa til kynna að nein brot hafi verið framin. Mér finnst mjög ólíklegt að það verði gefin út ákæra því ég get ekki ímyndað mér á hverju hún myndi byggjast,“ segir Gunnar Thorodd­sen, fyrrverandi yfirmaður gamla Landsbankans í Lúxemborg.

Greint var frá því í gær að hann og Björgólf­ur Guðmunds­son, einn af aðal­eig­end­um gamla Lands­bank­ans hefðu stöðu grunaðra í franskri rannsókn á lánum sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun. Ásamt Gunnari og Björgólfi eru sjö aðrir grunaðir í málinu.

Fimm ára rann­sókn eins þekkt­asta rann­sókn­ar­dóm­ara Frakk­lands, Renaud van Ruym­beke, er lokið en óvíst hvort ákæra verður gef­in út. „Það verður mjög fróðlegt að sjá á hverju einhverskonar saksókn myndi byggjast. Ég hef ekki séð nein gögn um það að bankinn hafi gert eitthvað sem hann átti ekki að gera,“ segir Gunnar.

Samkvæmt frétt sem birtist á vef­miðlin­um Paperjam í Lúx­em­borg fyrr í vik­unni er grunur um fjársvik og samningsbrot. Tekið er fram að hinir grunuðu hafi nú þrjá mánuði til að senda rann­sókn­ar­dóm­ar­an­um athugasemdir og í kjöl­farið verður tek­in ákvörðun um hvort ákært verður eða málið fellt niður.

Gunnar segist ekki sjá ástæðu til þess að gera athugasemd við málið, þar sem ekkert sé í gögnunum til að gera athugasemd við. „Það er nákvæmlega ekki neitt sem hefur fundist sem bendir til þess að nokkur hafi brotið af sér,“ segir hann.

Viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg telja sig hlunnfarna eftir að skiptastjóri bankans fór að innheimta ákveðna tegund lána sem voru veitt fyrir hrun, eða á árunum 2006 til 2008. Þeir sem hafa ákveðið að leita réttar síns eru flestir ellilífeyrisþegar sem fengu fjármuni lánaða út á verðmætar húseignir sínar.

Í stað þess að fá fulla greiðslu fyrir fékk fólkið aðeins um 25% greitt út á meðan 75% fjármunanna voru færðir í eignastýringu. Eftir hrun var hafist handa við að innheimta lánin og eru viðskiptavinirnir ósáttir við hvernig staðið var að málum, þ.e. bæði varðandi upphaflegar lánveitingar en einnig vegna innheimtunnar

Fjöldi erlendra viðskiptavina Landsbankans í Lúxemborg hefur undanfarin ár leitað réttar síns vegna tiltekinnar tegundar lána sem þeir tóku hjá bankanum fyrir hrun. Þetta voru aðallega ellilífeyrisþegar sem áttu verðmætar húseignir en ekki mikið lausafé. Fólkið fékk lánað út á allt verðmæti hússins en fékk einungis fjórðung greiddan út. Þrír fjórðu voru settir í eignastýringu þar sem féð var fjárfest í skuldabréfum og hlutabréfasjóðum.

Eftir hrun hóf skiptastjóri Landsbankans í Lúxemborg að innheimta þessi lán. Viðskiptavinirnir telja farið sínar ekki sléttir, bæði varðandi lánveitingar bankans og hvernig skiptastjórinn hefur höndlað málið.

Fram kom í frétt Rúv um málið í gær að lögmaður Björgólfs hafi komið því á framfæri við rannsóknardómarann að Björgólfur hafi ekki haft nein yfirráð yfir Landsbankanum í Lúxemborg eða komið þar að daglegum rekstri, heldur hafi hann einungis verið formaður bankaráðs á Íslandi. Því hafi hann ekki haft neina vitneskju um þessi mál eða önnur mál Landsbankans í Lúxemborg.

Ekki náðist í Björgólf við vinnslu fréttarinnar.

Gunnar Thorodd­sen
Gunnar Thorodd­sen
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK