„Þessi vél skiptir sköpum. Áður var 747 titluð konungur háloftanna og um áraraðir, en nýr kongungur hefur tekið við völdum, A380,“ sagði bandaríski leikarinn John Travolta á D/FW alþjóðaflugvellinum í Dallas á mánudag. Þá lenti A380 ofurþota ástralska flugfélagsins á vellinum í fyrsta skipti.
Travolta má kalla sendiherra Qantas sem skýrir veru hans á D/FW flugvellinum. Þetta voru viss tímamót fyrir Qantas sem skipti út Boeing 747 farþegaþotu sinni fyrir Airbus A380 á flugleiðnni frá Sydney til Dallas. „Einna hagstæðast fyrir Qantas er að nú þarf ekki að millilenda,“ sagði Travolta. „Á 747 vélinni þurfti að koma við í Brisbane en A380 fer alla leið í einu.“
Og leiðin er löng, 13.805 kílómetrar á 15 klukkustundum með 484 farþega. Leiðin er sú lengsta sem flogin er með farþega og A380 stærsta farþegaþota heims.
Ódýrustu miðarnir eru á um 230 þúsund krónur en hægt er að fá miða á allt að 1,5 miljón króna. Og fæstir eru farþegarnir á leið til Dallas heldur er flugvöllurinn tengipunktur við flugvelli í Norður-Ameríku og Suður-Ameríku.