Engar breytingar verða gerðar á stöðu Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, að svo stöddu og mun hún ekki tjá sig um ákæru sérstaks saksóknara. Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Alcan. Ekki hefur náðst í Rannveigu í dag.
Sérstakur saksóknari hefur ákært fyrrverandi sparisjóðsstjóra og fjóra fyrrverandi stjórnarmenn SPRON fyrir umboðssvik. Rannveig Rist er á meðal ákærðra stjórnarmanna. Fréttavefur Ríkisútvarpsins greindi frá ákærunni í gærkvöldi og kemur þar fram að ákært sé fyrir tveggja milljarða króna lán SPRON til Exista sem veitt var 30. september 2008. Lánið var veitt til þrjátíu daga.
Aðrir sem eru ákærðir eru Guðmundur Örn Hauksson sparisjóðsstjóri og stjórnarmennirnir Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist.
Samkvæmt upplýsingum frá sérstökum saksóknara verður ákæran birt þeim í dag. Samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur verður málið þingfest þann 13. október.
Margrét Guðmundsdóttir starfar sem forstjóri Icepharma og stjórnarformaður N1. Ekki hefur náðst í Margréti en samkvæmt hlutafélagalögum þyrfti hún að víkja úr stjórn N1 ef henni verður dæmd refsing í málinu. Þá má einnig nefna að Rannveig situr í stjórn HB Granda og gildir það sama um hana.