Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála og gerði íslenska ríkinu að greiða Vífilfelli til baka 80 milljónir króna sem fyrirtækinu var gert að greiða vegna samkeppnisbrota.
„Vífilfell lýsir yfir ánægju sinni með dóm Hæstaréttar og fagnar því að niðurstaða sé loks fengin í málið, meira en 7 árum eftir að Samkeppniseftirlitið hóf að eigin frumkvæði athugun sína.
Dómurinn er í samræmi við væntingar okkar en ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma kom okkur á óvart. Við höfum frá upphafi talið að málarekstur Samkeppniseftirlitsins sé ekki á rökum reistur og hefur það nú fengist staðfest.
Við væntum þess að málið sé nú að baki og við hlökkum til að geta tekið þátt í samkeppni á jafnræðisgrundvelli,“ segir í tilkynningu frá Vífilfelli vegna dóms Hæstaréttar.
Samkeppniseftirlitið ákvarðaði árið 2011 að Vífilfell hefði á árunum 2005 til 2008 brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, með gerð fjölda viðskiptasamninga við endurseljendur á gosdrykkjum, og var Vífilfell gerð sekt að fjárhæð 260.000.000 krónur.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti ákvörðunina með úrskurði sínum sama ár, en lækkaði sektarfjárhæðina í 80.000.000 krónur.
Vífilfell höfðaði í kjölfarið mál á hendur Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu aðallega til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar og endurgreiðslu sektarinnar, en ellegar til niðurfellingar hennar.
Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið kröfðust þess fyrir sitt leyti að fellt yrði úr gildi ákvæði úrskurðarins um hina lækkuð sektarfjárhæð og að Vífilfelli yrði gert að greiða 260.000.000 krónur í sekt.
Með héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var krafa Vífilfells um ógildingu úrskurðarins tekin til greina með skírskotun til þess að Samkeppniseftirlitið hefði ekki lagt grunn að skilgreiningunni, sem það beitti í ákvörðun sinni á markaði sem atvik málsins vörðuðu, með viðhlítandi rannsókn eftir fyrirmælum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.