Nýtt lúxushótel sem endurbyggt verður frá grunni verður opnað í Hafnarstræti 17-19 í miðbæ Reykjavíkur í ársbyrjun 2016 á vegum Icelandair Hotels, dótturfélags Icelandair Group.
Sjötíu herbergi verða á hótelinu og eru meginkostir hótelsins staðsetningin í miðbæ Reykjavíkur auk þess sem hægt er að hanna fasteignina frá grunni eftir þörfum hótelsins að því er fram kemur í tilkynningu.
Þessi viðbót ásamt Icelandair hótel Reykjavík Kultura, sem verður við Hverfisgötu, og stækkun Icelandair hótel Reykjavík Marina við Reykjavíkurhöfn er sögð vera í takt við stefnu félagsins um að sækja markvisst betur borgandi farþega til landsins og leitast þannig við að auka arðsemi félagsins og ferðaþjónustunnar almennt.
Verkefnið verður unnið í samvinnu við Suðurhús, sem er eigandi fasteignarinnar og mun stýra framkvæmdum. Icelandair Hotels mun leigja fasteignina til 20 ára.