Fara þarf til Frankfurt til að fljúga með A350

Katarska flugfélagið Qatar Airways hefur ákveðið að fyrstu farþegaþotu félagsins að gerðinni A350 WXB verði flogið á milli þýsku borgarinnar Frankfurt og Doha, höfuðborgar Katar. Gert er er ráð fyrir að fyrsta flugferðin verði farin í janúar næstkomandi.

A350 XWB er nýjasta afurð evrópska flugvélaframleiðandans Airbus og er meira en helm­ing­ur bolgrind­ar breiðþotunnar gerður úr sér­stak­lega hertu koltrefjaplasti. Verður hún því tölu­vert létt­ari en þotur sömu stærðar og eyðir minna eldsneyti.

Qatar Airways ráðgerir að fljúga daglega á milli Frankfurt og Doha og að breiðþotunni verði skipt í tvö farrými. Alls verða 36 sæti á fyrsta farrými en 283 sæti í almennu farrými. „Flugfélagið hefur valið þessa tilteknu evrópsku borg fyrir breiðþotuna vegna þess mikla farþegafjölda sem hún getur borið og þeirra þæginda sem í boði eru fyrir farþega í viðskiptaerindum eða aðra ferðalanga,“ sagði í tilkynningu frá Qatar Airways.

Stefnt er að því að Qatar Airways taki átta A350 XWB breiðþotur í notkun á næsta ári en alls hefur félagið pantað áttatíu slíkar þotur frá Airbus. Afhending fyrstu þotunnar hefur ekki enn farið fram en áætlun Airbus gerir ráð fyrir að það verði fyrir árslok. Fyrsta flugtak þeirrar vélar sem afhent verður var farið nýverið og heppnaðist vel. Er þotan í lokaprófunum við höfuðstöðvar Airbus, í frönsku borginni Toulouse.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK