Kauphöll Íslands hefur athugunarmerkt hlutabréf Eimskipafélags Íslands, vegna leka á gögnum til Kastljóss er tengjast rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Eimskip segir í tilkynningu að lekinn hafi skaðað ímynd félagsins og Eimskip hafi kært lekann til lögreglu
Þá hafnar Eimskip ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn ákvæðum samkeppnislaga. Þá er það von félagsins að rannsókn á því hvernig áðurnefnd trúnaðargögn komust í hendur óviðkomandi upplýsist sem fyrst.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Eimskip hefur sent frá sér.
„Leki á rannsóknargögnunum, og fjölmiðlaumræða í kjölfar hans, hefur nú þegar valdið hluthöfum félagsins tjóni. Þá hefur lekinn skaðað ímynd félagsins bæði hérlendis og erlendis.
Leki á trúnaðargögnum skráðra félaga varðar við lög um verðbréfaviðskipti. Eimskipafélagið hefur nú óskað eftir því við Kauphöll Íslands og Fjármálaeftirlitið að skoðuð verði viðskipti með bréf félagsins á þeim tíma sem það hefur verið til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Jafnframt hefur félagið kært lekann til lögreglu.
Eins og fram hefur komið hefur félagið ítrekað óskað eftir afriti af húsleitarbeiðni Samkeppniseftirlitsins, frá 9. september 2013, ásamt fylgiskjölum, m.a. með kærum til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Af umfjöllun Kastljóss má ráða að starfsmenn Kastljóss séu með kæru Samkeppniseftirlitsins til Sérstaks saksóknara undir höndum. Eimskip hefur þau gögn eðlilega ekki undir höndum þar sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins er ólokið. Hins vegar hefur félagið í kjölfar umræðunnar óskað eftir afriti af þeim gögnum sem Kastljós hefur undir höndum,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt kemur fram, að umfjöllun Kastljóss hafi verið ótímabær og til þess fallin að villa um fyrir almenningi. „Samkeppniseftirlitið kveður rannsókn málsins ekki vera komna á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar. Þá hefur Sérstakur saksóknari staðfest að rannsókn á málinu sé ekki hafin hjá embættinu,“ segir í tilkynningunni.
Félagið segir, að það hafi farið ítarlega yfir öll gögn sem það hafi undir höndum. Sú yfirferð hafi ekki varpað frekara ljósi á grundvöll málsins.
„Að mati félagsins koma engar nýjar upplýsingar, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt, fram í umfjöllun Kastljóss, þ.e. að félagið sæti rannsókn vegna meintra brota á 10. og 11. gr. samkeppnislaga. Eins og áður segir felst það í rannsókn á mögulegum brotum á 10. gr. samkeppnislaga að þáttur einstaklinga verði skoðaður.
Eimskip upplýsti þann 16. október sl. að það hefði í framhaldi af leka trúnaðargagna til Kastljóss ákveðið að grípa til eftirtalinna ráðstafana:
Alvarleiki lekans og umfjöllunar Kastljóss verður enn ljósari með ósk Samkeppniseftirlitsins um opinbera rannsókn á málinu þann 17. október sl. Með ósk sinni um rannsókn virðist Samkeppniseftirlitið telja að mögulegt sé að með lekanum hafi verið brotið gegn þagnarskyldákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti,“ segir í tilkynningunni.
„Félagið mun, hér eftir sem hingað til, upplýsa almenning um framgang rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum félagsins um leið og þær liggja fyrir.
Eimskipafélag Íslands hafnar með öllu ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn ákvæðum samkeppnislaga. Þá er það von félagsins að rannsókn á því hvernig áðurnefnd trúnaðargögn komust í hendur óviðkomandi upplýsist sem fyrst,“ segir ennfremur.