Misþung refsing innherja

Hans Boye Clausen féllst á greiðslu sektar er hljóðaði upp …
Hans Boye Clausen féllst á greiðslu sektar er hljóðaði upp á um hálfa milljón króna vegna innherjasvika en Baldur Guðlaugsson hlaut tveggja ára fangelsisdóm.

Tveimur dögum fyrir fall Amagerbankans danska tók stjórnarmaður hans um sextíu milljónir króna út af persónulegum reikningum sínum. Sátt náðist um greiðslu sektar er hljóðar upp á um hálfa milljón króna vegna málsins auk þess sem hann endurgreiddi þrotabúinu um 9,5 milljónir króna. Áhugavert er að bera mál hans saman við mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem gerðist sekur um sambærileg innherjasvik.

Stjórnarmaðurinn, Hans Boye Clausen, færði fyrrgreindra fjárhæð af svokölluðum áhættureikning í bankanum yfir á persónulegan reikning sinn þann 4. febrúar 2011 en það var daginn eftir að neyðarfundur var haldinn hjá stjórn bankans þar sem svört staða hans var dregin upp fyrir stjórninni. 

Sorgleg saga

Þegar Amagerbankinn var tekinn yfir af fjármálaeftirlitinu var það í fyrsta sinn í sögu nútímabankakerfisins í Danmörku sem innistæðueigendur töpuðu fjármunum sínum við gjaldþrot fjármálafyrirtækis. Einungis voru tryggðar innistæður að hámarki 750 þúsund danskar krónur, eða um 15,5 milljónir íslenskra króna.

Þáverandi formaður danska fjármálaeftirlitsins, Henning Kruse Petersen, vildi ekki tjá sig um málið þegar danska ríkissjónvarpið leitaði eftir því heldur sagði einungis að um sorglega sögu væri að ræða. Þá vildi viðskiptaráðherrann, Henrik Sass Larsen, ekki heldur tjá sig að öðru leyti en að Clausen hefði tekið út sína refsingu. Í tölvupósti sem Clausen sendi ABC fréttastofunni biðst hann innilegrar afsökunar á gjörðum sínum gagnvart öllum hlutaðeigandi og þá sérstaklega hluthöfum og viðskiptavinum bankans.

Endurgreiddi tæplega einn sjötta hluta upphæðarinnar

Þann 7. maí 2012 endurgreiddi Clausen þrotabúinu 461.466 danskar krónur, eða um 9,5 milljónir íslenskar krónur, en fjárhæðin samsvarar því sem sem Clausen hefði tapað, hefði hann ekki tekið peningana út úr bankanum. Þá féllst hann á greiðslu sektar er hljóðar upp á 25 þúsund danskar krónur, eða um hálfa milljón íslenskra króna, þann 2. október 2012, vegna innherjasvika. Þá er honum einnig meinað að starfa nokkru sinni aftur sem forstöðumaður fjármálafyrirtækis.

Fangelsi annars vegar og sekt hins vegar

Áhugavert er að bera mál Clausen saman við mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrr­ver­andi ráðuneyt­is­stjóra í fjár­málaráðuneyt­inu, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi vegna inn­herja­svika og brota í op­in­beru starfi þegar hann seldi hluta­bréf sín í Lands­bank­an­um þann 17. og 18. sept­em­ber 2008. Líkt og kunnugt er tók Fjármálaeftirlitið hann yfir þann 7. október 2008.

Talið var að Bald­ur hefði búið yfir inn­herja­upp­lýs­ing­um þegar hann seldi hluta­bréf sín í Lands­bank­an­um en hann sat einnig í samráðshóp íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Auk refsingarinnar var sölu­and­virði hluta­bréfanna í Lands­bank­an­um, sem Bald­ur seldi, gert upp­tækt en um var að ræða 192 millj­ón­ir króna.

Amagerbanken
Amagerbanken Mynd af Wikipedia
Baldur Guðlaugsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik.
Baldur Guðlaugsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK