Gríðarlegur verðmunur kann að vera á leitarniðurstöðum íslensku leitarvélarinnar Dohop sem farið getur eftir búsetu notandans. Það kann því að vera einfalt stillingaratriði að kalla fram tugþúsunda króna lægra verð. Skýringin felst að sögn Dohop í mismunandi verðum flugfélaganna, eftir því hvaðan fólk bókar þau.
Mbl framkvæmdi óformlega verðkönnun á Dohop þar sem bornar voru saman sömu flugleiðir á sömu dagsetningum en undir mismunandi þjóðerni notanda.
Þegar leitað var eftir flugi frá Barcelona á Spáni til Íslands þann 18. desember og til baka þann 5. janúar kostaði ódýrasta flugið 57.282 krónur og var þá flogið með flugfélögunum easyJet og WOW air. Var þetta niðurstaðan ef land þess sem leitaði var stillt á Ísland. Þegar landinu var hins vegar breytt yfir í Spán komu fram aðrar niðurstöður og var þá ódýrasta flugið á vegum Air France og Icelandair og kostaði 99.124 krónur. Munar þannig 41.842 krónum á verðinu eða 73%, allt eftir staðsetningu einstaklinganna.
Auk flugsins Spáni voru skoðaðar nokkrar aðrar flugleiðir af handahófi og voru niðurstöðurnar afar ólíkar eftir því hvaða þjóðerni varð fyrir valinu hverju sinni.
Kristján Guðni Bjarnason, framkvæmdastjóri Dohop, segir að um tæknilega takmörkun sé að ræða og að mismunandi gögn ráði leitarniðurstöðunum. „Það eru þúsundir leiða þarna á milli og við þurfum að takmarka okkur. Hverju við spyrjum eftir og hvaða verð við reynum að finna,“ segir hann. „Ef þú kemur frá Íslandi eru ekki notaðar sömu upplýsingar,“ segir hann.
Aðspurður hvers vegna það sé segir hann málið vera í þróun. „Ég myndi gjarnan vilja að við gætum gert miklu betur því það er klárlega okkur í hag að finna alltaf lægsta verðið sama hvaðan þú kemur,“ segir Kristján.
Þá segir hann einnig að ástæðurnar geti verið utanaðkomandi og mismunandi niðurstöður komi frá flugfélögum og ferðaskrifstofum sem gjarnan stýri verðinu eftir því hvaðan fólk kemur. „British Airwaves gæti til dæmis verið að bjóða Íslendingum mjög gott verð en Bretum hátt verð. Það hefur tíðkast mjög lengi og er mikið gert,“ segir hann. „En síður eins og Dohop reyna að brjóta niður þessa nálgun flugfélaga og ferðaskrifstofa með því að sækja verð frá mörgum löndum,“ segir hann.