Ábendingar bárust um tugi fyrirtækja

Meðan unnið var að greinaflokki Morgunblaðsins um vaxtarbrodda atvinnulífsins bárust ábendingar um tugi fyrirtækja um land allt sem ástæða væri til að veita athygli. Morgunblaðið veitir tíu vaxtabröddum í atvinnulífinu viðurkenningu eftir hringferð um landið. 

Hér verða nefnd örfá fyrirtæki sem oft var bent á án þess að tækifæri gæfist til að fjalla um þau að þessu sinni í greinaflokknum.

Á Vesturlandi: Vignir G. Jónsson sem sérhæfir sig í fullvinnslu á hrognum. Það er sagt eitt farsælasta og best rekna fyrirtæki á Akranesi. Niðursuðuverksmiðjan Akraborg sem í rúm 20 ár hefur verið leiðandi í framleiðslu á hágæða niðursoðinni þorsklifur. Norðanfiskur sem sérhæfir sig í áframvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar. Loftorka í Borgarnesi sem er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins á sviði framleiðslu húseininga úr steinsteypu. Límtré Vírnet í Borgarnesi sem framleiðir valsað stál og ál til klæðninga utanhúss og innanhúss. Brugghúsið Steðji í Flókadal sem er fjölskyldufyrirtæki. Garðyrkjustöðin Sólbyrgi í Reykholtsdal. Fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir um 10% allra jarðarberja á íslenskum neytendamarkaði.

Snæfellsnes og Dalir: Rjómabúið að Erpsstöðum, fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir ís, konfekt og osta fyrir sælkera og rekur að auki gistingu fyrir ferðalanga. Hótel Framnes í Grundarfirði sem gerir m.a. út á hvalaskoðunarferðir í Kolgrafafirði. Fiskiðjan Bylgjan í Ólafsvík sem verkar, frystir og flytur út yfir fimmtán fiskitegundir og leggur áherslu á vandaða umhverfisstefnu. Skipavík í Stykkishólmi sem rekur dráttarbraut og vélsmiðju og stundar einnig almenna verktakavinnu. Hraðfrystihús Hellissands sem er eitt stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið í Snæfellsbæ með aðsetur á Rifi. Hjá fyrirtækinu starfa fimmtíu manns við fiskvinnslu og tuttugu á sjó.

Vestfirðir: Standaber sem nýtir aðalbláber tínd í Strandasýslu. Berin eru pressuð og nýtt í safa og hratið er nýtt sem hráefni fyrir búst eða þurrkað sem millimál. Vélsmiðjan Logi sem sinnir almennum skipa- og vélaviðgerðum á Patreksfirði. Gullsteinn á Reykhólum sem er að þróa og sérhæfa sig í framleiðslu á lífrænum þara og þangi í formi fæðubótarefnis. Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur.

Norðurland: Pharmarctica á Grenivík sem framleiðir snyrtivörur, fæðubótarefni, sápur, smyrsl og fleira. Frís litla íspsinnagerðin á Sauðárkróki sem framleiðir íspinna. Steindór Haraldsson á Skagaströnd sem undirbýr framleiðslu á súpum til útflutnings á Japansmarkað. Ferðaþjónustufyrirtækið Haf og land sem stendur fyrir siglingum um Skagafjörð.

Austurland: Fjölskyldufyrirtækið Tanni Travel á Eskifirði sem rekur persónulega ferðaþjónustu. Móðir Jörð í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem sinnir lífrænni ræktun og matvælaframleiðslu.

Suðurland: Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Activities í Hveragerði. Ölvisholt Brugghús sem framleiðir nokkrar vinsælar bjórtegundir. Millibör á Höfn í Hornafirði sem hannar og framleiðir föt.

Suðurnes: Útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood í Grindavík. Veitingahúsið Vitinn í Sandgerði.

Höfuðborgarsvæðið: Hugbúnaðarfyrirtækið Handpoint.

Reykjavík: Mentor sem rekur upplýsingakerfi fyrir menntastofnanir. Mint Solutions sem hefur hannað og þróað MedEye-lyfjaskannann sem talinn er geta stóraukið lyfjaöryggi hjá sjúkrahúsum. Nýsköpunarfyrirtækið Hugvakinn sem framleiðir snjallsímaforritið Tunerific. Það er nú notað í yfir milljón farsímum. Þess má geta að ábendingar bárust um nokkra tugi nýsköpunarfyrirtækja í Reykjavík sem ekki var rúm til að fjalla um í greinaflokknum. 

Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur vakið mikla athygli fyrir vörur …
Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur vakið mikla athygli fyrir vörur sínar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK