Meðan unnið var að greinaflokki Morgunblaðsins um vaxtarbrodda atvinnulífsins bárust ábendingar um tugi fyrirtækja um land allt sem ástæða væri til að veita athygli. Morgunblaðið veitir tíu vaxtabröddum í atvinnulífinu viðurkenningu eftir hringferð um landið.
Hér verða nefnd örfá fyrirtæki sem oft var bent á án þess að tækifæri gæfist til að fjalla um þau að þessu sinni í greinaflokknum.
Á Vesturlandi: Vignir G. Jónsson sem sérhæfir sig í fullvinnslu á hrognum. Það er sagt eitt farsælasta og best rekna fyrirtæki á Akranesi. Niðursuðuverksmiðjan Akraborg sem í rúm 20 ár hefur verið leiðandi í framleiðslu á hágæða niðursoðinni þorsklifur. Norðanfiskur sem sérhæfir sig í áframvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar. Loftorka í Borgarnesi sem er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins á sviði framleiðslu húseininga úr steinsteypu. Límtré Vírnet í Borgarnesi sem framleiðir valsað stál og ál til klæðninga utanhúss og innanhúss. Brugghúsið Steðji í Flókadal sem er fjölskyldufyrirtæki. Garðyrkjustöðin Sólbyrgi í Reykholtsdal. Fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir um 10% allra jarðarberja á íslenskum neytendamarkaði.
Snæfellsnes og Dalir: Rjómabúið að Erpsstöðum, fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir ís, konfekt og osta fyrir sælkera og rekur að auki gistingu fyrir ferðalanga. Hótel Framnes í Grundarfirði sem gerir m.a. út á hvalaskoðunarferðir í Kolgrafafirði. Fiskiðjan Bylgjan í Ólafsvík sem verkar, frystir og flytur út yfir fimmtán fiskitegundir og leggur áherslu á vandaða umhverfisstefnu. Skipavík í Stykkishólmi sem rekur dráttarbraut og vélsmiðju og stundar einnig almenna verktakavinnu. Hraðfrystihús Hellissands sem er eitt stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið í Snæfellsbæ með aðsetur á Rifi. Hjá fyrirtækinu starfa fimmtíu manns við fiskvinnslu og tuttugu á sjó.
Vestfirðir: Standaber sem nýtir aðalbláber tínd í Strandasýslu. Berin eru pressuð og nýtt í safa og hratið er nýtt sem hráefni fyrir búst eða þurrkað sem millimál. Vélsmiðjan Logi sem sinnir almennum skipa- og vélaviðgerðum á Patreksfirði. Gullsteinn á Reykhólum sem er að þróa og sérhæfa sig í framleiðslu á lífrænum þara og þangi í formi fæðubótarefnis. Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur.
Norðurland: Pharmarctica á Grenivík sem framleiðir snyrtivörur, fæðubótarefni, sápur, smyrsl og fleira. Frís litla íspsinnagerðin á Sauðárkróki sem framleiðir íspinna. Steindór Haraldsson á Skagaströnd sem undirbýr framleiðslu á súpum til útflutnings á Japansmarkað. Ferðaþjónustufyrirtækið Haf og land sem stendur fyrir siglingum um Skagafjörð.
Austurland: Fjölskyldufyrirtækið Tanni Travel á Eskifirði sem rekur persónulega ferðaþjónustu. Móðir Jörð í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem sinnir lífrænni ræktun og matvælaframleiðslu.
Suðurland: Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Activities í Hveragerði. Ölvisholt Brugghús sem framleiðir nokkrar vinsælar bjórtegundir. Millibör á Höfn í Hornafirði sem hannar og framleiðir föt.
Suðurnes: Útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood í Grindavík. Veitingahúsið Vitinn í Sandgerði.
Höfuðborgarsvæðið: Hugbúnaðarfyrirtækið Handpoint.
Reykjavík: Mentor sem rekur upplýsingakerfi fyrir menntastofnanir. Mint Solutions sem hefur hannað og þróað MedEye-lyfjaskannann sem talinn er geta stóraukið lyfjaöryggi hjá sjúkrahúsum. Nýsköpunarfyrirtækið Hugvakinn sem framleiðir snjallsímaforritið Tunerific. Það er nú notað í yfir milljón farsímum. Þess má geta að ábendingar bárust um nokkra tugi nýsköpunarfyrirtækja í Reykjavík sem ekki var rúm til að fjalla um í greinaflokknum.