Fyrirtækið Teledyne Gavia í Kópavogi hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á höfuðborgarsvæðinu. Það hannar og framleiðir dvergkafbáta samkvæmt íslenskri uppfinningu, skapar 25 störf og talsverðar gjaldeyristekjur.
Teledyne Gavia hét upphaflega Hafmynd og var í eigu nokkurra íslenskra frumkvöðla. Fyrirtækið á rætur að rekja til vinnu Hjalta Harðarsonar verkfræðings sem byrjaði árið 1996 að þróa djúpfar í samstarfi við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Þremur árum seinna var Hafmynd stofnuð og fyrsta útgáfan af djúpfarinu sjósett.
Önnur kynslóð djúpfarsins var hönnuð á árunum 2003 og 2004 og er enn byggt á þeirri vinnu við framleiðsluna. Það sem er sérstakt við íslensku djúpförin er að þau eru búin til úr einingum, þannig að kaupandi getur sett þau saman eins og honum hentar. Þannig er hægt að setja í þau ný mælitæki eða nema, þegar þeir koma á markað. Einnig hvers kyns myndavélar.
Annað sem sérstakt var við íslensku djúpförin í upphafi var að þau voru minnstu för sinnar tegundar sem gátu kafað niður á eins kílómetra dýpi.
Bandarískt fyrirtæki keypti Hafmynd haustið 2010 og var þá núverandi nafn tekið upp. Starfsemin er áfram á Íslandi og eru engar breytingar áformaðar á því. Við kaupin voru starfsmenn 18 til 19, en eru nú 25, þar af tveir í söludeild í Bandaríkjunum. Tveir starfsmenn verða ráðnir til viðbótar á næstunni.
Viðskiptavinir Teledyne Gavia eru í meginatriðum þrír hópar. Ríkisstjórnir kaupa djúpförin til notkunar fyrir her eða landhelgisgæslu, olíuleitarfyrirtæki kaupa þau til rannsókna og háskólar og stofnanir hafa margvísleg not af þeim.
Fyrir tveimur árum keypti rússneski herinn átta djúpför af fyrirtækinu og er sá samningur metinn á þrjá milljarða króna. Djúpförin eru aðallega seld til ríkja í Evrópu, en fara þó víðar. Eftir sölu Hafmyndar fyrir fjórum árum hefur velta fyrirtækisins 2,5-faldast og söluaukningin á þessu ári er um 10 til 15%.