Traust þekking ehf. í Borgarnesi hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á Vesturlandi. Fyrirtækið hannar og framleiðir vélbúnað fyrir matvælavinnslu, skapar atvinnu fyrir tuttugu manns og töluverðar gjaldeyristekjur vegna sölu utanlands.
Traust þekking er eitt fyrsta nýsköpunarfyrirtækið hér á landi, stofnað af Trausta Einarssyni árið 1978. Starfsemin hefur frá upphafi snúist um að hanna og framleiða búnað til að auðvelda vinnslu matvæla, einkum í sjávarútvegi. Þá veitir fyrirtækið ráðgjöf á þessu sviði. Fyrsti búnaðurinn sem Traust þekking hannaði og framleiddi var til vinnslu loðnuhrogna.
Ársvelta fyrirtækisins er um 350 milljónir. Eru tekjurnar mestar í erlendum gjaldeyri. Framleiðsluvörurnar eru fjölbreytilegar. Sem dæmi má nefna sprautuvélar, söltunarkerfi, vinnslulínur, rækjuverksmiðjur, skelverksmiðjur, reykverksmiðjur og löndunarkerfi fyrir síld, loðnu og makríl með fiskidælum og færiböndum. Allur þessi búnaður er hannaður hjá fyrirtækinu og byggist á hugviti og þekkingu sem þar er til staðar.
Nýjasta framleiðsluvaran er skurðvél sem sker afurðirnar í fyrirfram ákveðnar stærðir eftir eðlisþyngd hráefnisins. Notuð er þrívíddar-leysitækni til að greina lögun hráefnisins og reiknar vélin skammtastærðir út frá löguninni og þyngdinni. Vél þessi hentar til skurðar á fiski og beinlausum kjötafurðum. Að vélinni hefur verið unnið í tvö ár og er hin fyrsta sem framleidd hefur verið þegar seld til Spánar.
Önnur ný framleiðsluvara fyrirtækisins er afsöltunarvél. Um er að ræða nýja aðferð við að afsalta fisk í saltfiskframleiðslu. Endurnýtir vélin salt sem ekki nýtist við vinnslu og eykur þar af leiðandi nýtingu á hráefni til mikilla muna.