Nýsköpunarfyrirtækið Controlant hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, í Reykjavík. Það býr til lítil mælitæki sem mæla þætti eins og hita- og rakastig í viðkvæmum geymslum lyfja- og matvælaiðnaðar. Tækin senda upplýsingarnar þráðlaust til notenda.
Framleiðsluvara Controlant er eins og spilastokkur að stærð. Þessi stokkur er með rafeindabúnaði og mælir stöðugt þætti á borð við hita- og rakastig og skrásetur jafnóðum staðsetninguna. Mælitæki þessi er hægt að nota til að vakta hvaðeina sem þörf er á, hitastig í vörugeymslum, gæta þess að vara sé flutt við kjöraðstæður eða að lyf uppi í hillu apóteks séu aldrei geymd við þær aðstæður að það geti stytt líftíma lyfjanna. Mælitækið sendir mælingarnar þráðlaust frá sér og yfir farsímakerfi í miðlægan gagnagrunn Controlant.
Í grunninum eru gögnin geymd og unnið úr þeim, og þau svo gerð aðgengileg í gegnum notendavænt viðmót.
Tækni Conrtolant tryggir að á allri lífsleið þess varning sem vaktaður er sé ávallt hægt að ganga úr skugga um að aðstæður séu réttar. Þetta dregur úr hættu á skemmdum, eykur gæði vörunnar sem kemur í hendur neytenda og ef eitthvað hefur komið upp á í flutningnum er mjög auðveldlega hægt að sjá hvað gerðist.
Mælitæki fyrirtækisins eru þegar í notkun hjá 150 fyrirtækjum í tíu löndum. Unnið er að því að byggja upp sterkt alþjóðlegt sölu- og dreifikerfi til að hámarka þá fjárfestingu sem sett hefur verið í vöruþróun fyrirtækisins.