Milljarðar sparaðir í skattaskjóli

Pepsi er á meðal þeirra fyrirtækja sem nýttu sér skattafyrirkomulagið.
Pepsi er á meðal þeirra fyrirtækja sem nýttu sér skattafyrirkomulagið. AFP

Stjórnvöld í Lúxemborg hafa legið undir harðri gagnrýni í dag eftir að upp komst um samninga sem gerðir voru við 340 stórfyrirtæki á borð við Pepsi, Ikea, Deautche Bank og FedEx sem gera þeim kleift að komast undan himinháum skattgreiðslum þrátt fyrir að með lágmarks starfsemi þar í landi. Að minnsta kosti eitt íslenskt fyrirtæki er á listanum, Kaupthing í Lúxemborg.

Svo virðist sem fyrirtækin hafi veitt hundruð milljarða Bandaríkjadala í gegnum smáríkið og þannig sparað sér milljarða dollara sem ella hefðu farið í skattgreiðslur. Þetta kemur fram í 28 þúsund blaðsíðna trúnaðargögnum sem lekið var til alþjóðlegs félags rannsóknarblaðamanna sem samanstendur af áttatíu blaðamönnum frá 26 ríkjum.

Juncker hinn rólegasti

Nafn Jean-Claude Juncker hefur oft borið á góma í dag í tengslum við málið en hann er nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann var hins vegar forsætisráðherra Lúxemborgar í nítján ár og því maðurinn við stjórnvöllinn þegar meirihluti fyrrnefndra gjörninga voru gerðir. Talsmaður Juncker sagði hann vera hinn rólegasta yfir uppljóstruninni en athygli vakti þó þegar hann afboðaði í dag ræðu sem hann átti að halda á fimmtudag ásamt Jacques Delors, forvera hans í starfi hjá ESB.

Talsmaður Juncker lagði þá áherslu á að regluverðir ESB væru þegar að rannsaka skattasamkomulag Lúxemborgar við bandaríska netrisann Amazon og ítalska bifreiðaframleiðandann Fiat og hvort í þeim fælist mögulega ólögleg ríkisaðstoð. Ef niðurstaða þeirrar rannsóknar verður sú að Lúxemborg hafi með þessu gerst brotlegt við ákvæði ESB-samningsins verður gripið til ráðstafana og gæti niðurstaða þeirra mála orðið fordæmisgefandi fyrir þau mál sem fjallað var um í dag.

Skatturinn fyrirfram ákveðinn

Skattafyrirkomulagið var sett upp með hjálp endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers sem aðstoðaði fyrirtækin í 548 skattamálum á árunum 2002 til 2010. Samningarnir voru framvirkir á þá leið að ákveðið var fyrirfram hversu mikið fyrirtækin myndu greiða í skatt en þetta er sama aðferðin og var notuð í Amazon og Fiat málunum. Greiddu sum fyrirtækin einungis 1 prósent skatt af tekjum sínum með þessu.

Evrópusambandið hefur ekki lögsögu yfir skattamálum aðildarríkja en hefur þó vald til að ákvarða hvort tiltekin aðferð við skattlagningu teljist ríkisaðstoð sem brýtur gegn fjórfrelsisákvæði ESB samningsins. Sambærileg mál eru einnig í gangi gegn Írlandi vegna samkomulags ríkisins við tæknirisann Apple og Hollandi vegna samnings við kaffihúsakeðjuna Starbucks.

Jean-Claude Juncker
Jean-Claude Juncker AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK