Úrgangur að bætiefni í eldsneyti

Orkey á Akureyri sem framleiðir lífdísil.
Orkey á Akureyri sem framleiðir lífdísil. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Orkey ehf. á Akureyri hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á Norðurlandi. Fyrirtækið vinnur lífdísil úr úrgangi og nýtir sem bætiefni í eldsneyti. Einnig vinnur það umhverfisvænt íblöndunarefni sem notað er í vegklæðningu. Starfsemin sparar urðunargjald og erlendan gjaldeyri.

Nánast öll framleiðsla Orkeyjar er nú keypt af útgerðarfélaginu Samherja og notuð sem bætiefni í eldsneyti fiskiskipa félagsins. Orkey getur ekki framleitt meira nema verksmiðjan verði stækkuð.

Úrgangurinn sem Orkey vinnur með er einkum steikingarolía og dýrafita. Með því að nýta þetta til framleiðslu á lífdísil spara veitingahús og mötuneyti urðunargjald á tugum tonna á ári. Við úrvinnsluna verður til bætiefni í eldsneyti sem dregur úr mengun, fer betur með vélar og sparar eldsneyti.

Orkey hóf starfsemi fyrir fjórum árum. Verksmiðja fyrirtækisins var hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hugmyndin var upphaflega að framleiða bætiefni fyrir dísilknúna bíla á Akureyri. Tilraunir voru gerðar með notkun framleiðslunnar á strætisvagn í bænum og gafst það vel. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að nær öll framleiðsla Orkeyjar, um 300 þúsund lítrar á ári, fer til Samherja. Olíufélögin flytja hins vegar inn íblöndunarefni þar sem innlend framleiðsla er engan veginn fullnægjandi til að anna eftirspurninni.

Önnur efni en úrgangurinn sem Orkey notar eru af endurnýjanlegum uppruna; metanól frá CRI og heitt vatn og rafmagn frá Norðurorku. Má því segja að starsfemin sé eins umhverfisvæn og mögulegt er.

Fyrirtækið hefur samið við Efnamóttökuna og Gámaþjónustuna um söfnun notaðrar steikningarolíu um land allt. Viðskiptavinum er útvegað geymsluílát þar sem úrgangurinn er geymdur, ílátin síðan tæmd reglulega eftir óskum hvers og eins. Þetta skipulag hefur auðveldað mjög aðgengi Orkeyjar að hráefni.

Nokkrar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Orkeyjar frá því að fyrirtækið var stofnað. Nú standa að því sex aðilar, Mannvit, Samherji, Norðurorka, Tækifæri, N1 og Víkey. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK