Elta síðurnar óháð léninu

Ekki skiptir máli hvað síðurnar heita að sögn framkvæmdastjóra STEFs.
Ekki skiptir máli hvað síðurnar heita að sögn framkvæmdastjóra STEFs.

„Það er alveg ljóst að búið er að dæma starfsemi Deildu ólöglega óháð léninu sem þeir ætla að fela sig á bak við. Við munum elta þá burt séð frá því og það gerir þá ekkert frekar löglega að heita eitthvað annað,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri  STEFs.

Líkt og fram hefur komið lagði Sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann að beiðni STEFs við þeirri athöfn fimm fjarskiptafyrirtækja að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að völdum skráarskiptisíðum, þ.e. síðunum Deildu og Piratebay, undir nánar tilteknum lénum.

Fyrir dómi benti Vodafone meðal annars á að netnotendur gætu með einföldum hætti komist framhjá lögbanninu með því að nota svokallaðar staðgengils- eða proxy-þjónustur sem eru öllum aðgengilegar á vefnum og að lögbannið myndi því hafa takmarkaða þýðingu og hagsmunir STEFs væru þannig fjarri því að vera jafnmiklir og haldið var fram. Dómurinn féllst þó ekki á þetta.

Deildu stendur enn opið

Eftir að fallist var á lögbannið hefur málatilbúnaður Vodafone hins vegar sannað sig að því leyti að vefsvæði Deildu stendur enn opið, en þó undir öðru léni. Að sögn upplýsingafulltrúa Símans, Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur, hefur það ekki verið sérstaklega skoðað hjá Símanum hvaða áhrif lögbannið hefur haft á niðurhal viðskiptavina. „Reynslan erlendis frá bendir til þess að það hafi ekki teljandi áhrif á heildarumferð að loka niðurhalssíðum eins Deildu og Pirate Bay þar sem þessi notkun hefur tilhneigingu til að finna sér annan farveg,“ segir hún. „Hins vegar hefur lögbann sem þetta þau áhrif að fólk verður meðvitaðra um það að niðurhal á kvikmyndum og tónlist getur verð ólöglegt.“

Skora á öll fjarskiptafyrirtæki

Aðspurð hvers vegna öll fjarskiptafyrirætki hafi ekki verið tekin fyrir í lögbannsbeiðninni segir Guðrún Björk að í upphafi málsins hafi ákvörðun verið tekin um að taka fimm stærstu fyrirtækin fyrir þar sem málið hefði að öðrum kosti orðið of umfangsmikið. Hún bætir þó við að nú sé komið fordæmi fyrir önnur fyrirtæki og að þeim muni berast áskorun um að fylgja því. Nú þegar hefur verið haft samband við Nova og er beðið eftir afstöðu þeirra. Ef neitun berst frá þeim verður málinu fylgt eftir með Því að óska eftir lögbanni.

Skapa umtal um niðurhal

Hún segist vissulega gera sér grein fyrir að ekki sé hægt að loka öllum ólöglegum vefsíðum en telur málið hins vegar til þess fallið að draga úr aðsókninni. „Þú þarft að vera ansi einbeittur í því að ætla að nálgast efni ólöglega. Fyrir utan það hjálpar til að minna á að þetta sé ólögleg starfsemi sem veldur tjóni. Nú er búið að lýsa því yfir í dómi að þetta sé ólöglegt og það hjálpar.“

Spurð hvort málið hafi verið höfðað til þess eins að vekja umtal segir hún að samtökin hefðu gjarnan viljað eyða peningunum í aðra hluti. „En það er vissulega eitt af því sem fæst úr þessu,“ segir hún. „Með þessu dómafordæmi eru lögregla og ákæruvald einnig komin með fleiri tæki í sinn verkfærakassa og geta sinnt sínu starfi og tekið á málinu. Við myndum gjarnan vilja sjá lögregluna gera meira af því,“ segir hún en bætir þó við að vænlegra sé til árangurs að loka milliliðum heldur en að eltast við einstaklinga sem stunda niðurhal.

Frétt mbl: Vodafone lokar á Deildu og Piratebay

Frétt mbl: Síminn lokar á deildu.net

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs.
Skjáskot af Deildu.net
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK