Greiðslubyrði lækkar um 15%

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Hörpu í dag.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn

Skuldir heimilanna munu lækka um tuttugu prósent að meðaltali með aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Afskriftin mun fara fram á rúmu ári í stað fjögurra líkt og upphaflega var gert ráð fyrir og verður að fullu lokið í ársbyrjun 2016 í stað ársloka 2017. Með þessu móti sparar ríkið sér töluverðar fjárhæðir í vaxtakostnað.

Niðurstaðan var kynnt á blaðamanna­fundi í Hörpu í dag. Rúmur helmingur leiðréttingarinnar rennur til einstaklinga sem eiga minna en fjórar milljónir króna í eigin fé og hjóna sem eiga minna en þrettán milljónir í eigin fé. Rúmur helmingur rennur til fólks sem er með tekjur undir meðaltali. 

Áhrifum verðbólgu umfram 4% eytt

Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra sem nýta sér leiðréttinguna að fullu getur lækkað um 15%. Þá er með beinu og óbeinu framlagi ríkisins öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008 til 2009 leiðrétt til fulls en meðalverðbólga hefur verið um 5,8% á síðastliðnum áratug. Er 4% verðbólga við vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands. 

Niðurstaða um 90% umsókna verður birt á morgun en ekki er unnt að birta um 10% vegna ýmissa ástæðna er snúa að högum umsækjenda. Í dag er búið að vinna úr og samþykkja rúmlega 90 þúsund umsóknir en vinna stendur ennþá yfir og verður öllum birt niðurstaðan fyrir áramót í síðasta lagi.

2.500 manns úr neikvæðri eiginfjárstöðu í jákvæða

Aðgerðin er sögð vega þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum sem var innan við fertugt fyrir hrun, á lítið eigið fé í húsnæði sínu og skuldar á bilinu 15 til 30 milljónir króna. Leiðréttingin lækkar höfuðstól íbúðarlána um 150 milljarða króna. Með aðgerðunum styrkist eiginfjárstaða um 56 þúsund heimila með beinum hætti og um 2.500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu. 

Leiðrétting fasteignalána er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun lána sem tekin voru til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Leiðréttingin tekur til verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga.  Hægt var að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum fasteignaveðlánum frá því að umsókn var opnuð 18. maí til og með 1. september 2014 þegar endanlega var lokað fyrir umsóknir.

Fleiri aðgerðir á kjörtímabilinu

Alls bár­ust um 69 þúsund um­sókn­ir um leiðrétt­ingu hús­næðislána frá um 105 þúsund kenni­töl­um og verða niðurstöðurnar kynntar umsækjendum á morgun, 11. nóvember á vef verkefnisins, leidretting.is Samþykki skulda­leiðrétt­ing­ar­inn­ar hefst í des­em­ber og er áætlað að ein­stak­ling­ar hafi níu­tíu daga til að und­ir­rita og samþykkja niður­stöðuna. Ef fólk sætt­ir sig ekki við niður­stöðuna verður hægt að vísa henni til sér­stakr­ar áfrýj­un­ar­nefnd­ar sem skipuð var af fjár­málaráðherra sam­kvæmt til­nefn­ingu frá Hæsta­rétti.

Sig­mund­ur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið í dag leiðrétt­ing­in væri ein­ung­is fyrsta aðgerð af mörg­um sem rík­is­stjórn­in hyggist inn­leiða á kjör­tíma­bil­inu í því skyni að skapa heil­brigðara um­hverfi bæði heim­ila og fjár­mála­markaðar.

Frá kynningu leiðréttingarinnar í Hörpu í dag.
Frá kynningu leiðréttingarinnar í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK