Félagið Exclusive Boutique C. Ncogo ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann 30. október 2014. Félagið er í eigu Catalinu Ncogo og hélt að hennar sögn utan um leigusamning um verslunarrými fataverslunar hennar, Miss Miss.
Catalina staðfestir þetta í samtali við mbl og segir jafnframt að hún hafi viljað losna úr húsnæðinu í Holtagörðum og því ákveðið að setja félagið í þrot. Hún segir leiguna hafa verið nýlega hækkaða og of háa. Leigusamninginn segir hún þá vera til tíu ára og að ekki hefði verið mögulegt að segja honum upp. Taldi hún sér því ekki eiga annars kostar völ en að setja félagið í þrot og losna þannig undan samningssambandinu.
Rekstur fataverslunarinnar er hins vegar aðskilinn í öðru félagi sem einnig er í eigu Catalinu. Hún hyggst flytja verslunina yfir í Kringluna og vonast til þess að hægt verði að opna eftir um tvo mánuði. Miss Miss er hluti ítalskrar tískuverslunarkeðju og opnaði Catalina búðina í Holtagörðum í fyrra.
Frá gjaldþrotinu var greint í Lögbirtingarblaðinu á fimmtudag þar sem jafnframt var skorað á kröfuhafa að lýsa kröfum sínum í búið. Skiptastjóri búsins segir málið vera á upphafsstigi og að fyrirsvarsmaður þess hafi ekki ennþá komið í skýrslutöku og því séu ekki komnar fram upplýsingar um orsakir þrotsins.
Líkt og áður hefur verið greint frá var Catalina dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2009 fyrir hagnýtingu vændis og fíkniefnabrot. Hæstiréttur þyngdi þann dóm hins vegar í 3½ ár í júní 2010. Þá var hún einnig dæmd í 15 mánaða fangelsi í júlí 2010 fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni og var dómurinn hegningarauki við fyrri dóm. Catalina var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal.
Hún sat inni í tvö ár í kvennafangelsinu í Kópavogi og var látin laus í júní 2011.