Rúmum 1,8 milljarði króna var lýst í eignalaust þrotabú einkahlutafélagsins Þverholt 11. Var skiptum lokið þann 2. október sl. án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
Eigendur félagsins eru hinn svokallaði Hanza-hópur í gegnum félagið Hanza-Hópurinn ehf., Ufs ehf. og ANS ehf. Stjórnarformaður félagsins er Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf. sem eiga byggingarlandið á Hlíðarenda. Aðrir stjórnarmenn eru Jón Pálsson, Sigurður Halldórsson, Sigrún Björg Þorgrímsdóttir, Árni Kjartansson og Ólafur Steinar Hauksson.
Heiti félagsins Hanza-Hópurinn var þó breytt árið 2011 og hét þar eftir Marklendur ehf. en það félag var úrskurðað gjaldþrota í desember sama ár og var skiptum lokið í nóvember 2012 þar sem tæpum 2,5 milljarði króna var lýst í búið en ekkert fékkst greitt upp í almenna kröfur.
Tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir áttu um tíma hlut í félaginu en seldu hann árið 2007 til félagsins Merlu ehf., sem er félag Róberts Melax, stofnanda Lyfju og meðlimar í Hanza-hópnum. Þeim til viðbótar var Guðni Bergsson, fyrrum landsliðsmaður og fyrirliði Bolton Wanderers í stjórn félagsins. Hann sagði sig hins vegar úr henni árið 2012.
Þá var félagið Merla ehf., sem tók við hlutnum í Marklendum ehf., úrskurðað gjaldþrota þann 19. mars sl. og var skiptum lokið þann 2. september. Tæpum 58 milljóna kröfum var lýst í búið en engar almennar kröfur fengust greiddar.
Félagið Marklendur var afar stórtækt í byggingarframkvæmdum í aðdraganda hrunsins og var um tíma eigandi fjölbýlishúsaverkefnis á Arnarneshæð í Garðabæ. Þá stóð félagið einnig fyrir framkvæmdunum á Rafha-reitnum í Hafnarfirði og endurbyggingu gamla DV-hússins að Þverholti 11, framkvæmdir sem félagið Þverholt 11 ehf. hélt utan um.
Í dag er í húsinu öll starfsemi hönnunar- og arkitektúrsdeilda Listaháskóla Íslands ásamt aðalskrifstofum. Framkvæmdirnar á Þverholti 11 hófust árið 2007 þar sem ráðist var í gagngerar endurbætur og stækkun hússins. Byggðar voru þrjár nýjar hæðir ofan á húsið, sem í dag er kjallari og sex hæðir.
Samkvæmt upplýsingum úr Lögbirtingarblaðinu fór Orkuveita Reykjavíkur fram á að Þverholt 11 yrði selt nauðungarsölu í ágúst í fyrra að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur vegna kröfu er hljóðaði upp á tæpa eina milljón króna. Síðar samþykkti eigandi húsnæðisins, sem þá var félagið Þ11 ehf. tilboð FÍ fasteignafélags í janúar sl. Kaupverðið var ekki gefið upp en talið var að það hefði verið nálægt brunabótamati hússins er hljóðaði upp á rúmar 748 milljónir króna.
Félagið Þ11 ehf. er í eigu SV50 ehf, Glámu/Kíms ehf., sem er í eigu fimm eigenda Arkitekta Laugavegi 164 ehf og ANS ehf. sem nefnt var að framan og er eignarhaldsfélag Ívars Þórs Þórissonar og Ólafs Steinars Haukssonar, sem einnig var í stjórn Þverholts 11 ehf.
FÍ fasteignafélag er í eigu lífeyrissjóða og sér MP banki um rekstur þess.