Stjórnvöld eiga að setja reglur um áfengissölu en einkaaðilar eiga að sjá um söluna. Þetta segir í umsögn bandarísku verslunarkeðjunnar Costco um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögjöfinni. Í umsögninni segir að Costco hafi áhuga að opna vöruhús á Íslandi og vilji því kynna sjónarmið sín um frumvarpið.
Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður Costco á Íslandi, segir að stjórnendur verslunarinnar vilji einfaldlega hafa sambærilegt vöruúrval í mögulegu vöruhúsi þeirra á Íslandi líkt og annars staðar. Vildi hann þó ekki segja hvort frjáls sala áfengis væri forsenda fyrir komu þeirra.
„Það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu. Hlutverk ríkisins er að setja reglur um smásölu og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Það er hins vegar hlutverk einkaaðila að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Þetta sjónarmið á við um áfengi sem aðrar neysluvörur og nauðsynjavörur eins og t.d. lyf,“ segir í umsögninni.
Félagið rekur í dag um 670 vöruhús í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Bretlandi, Spáni, Kóreu, Japan, Taívan og Ástralíu og er einn stærsti söluaðili áfengis í heiminum, bæði í smásölu og heildsölu. Í umsögninni er bent á að starfsemi félagsins sé alþjóðleg og fari fram í ýmsum lögsögum og „því hafi fáir, ef nokkur, jafn víðtæka reynslu af sölu áfengis í ólíku lagaumhverfi.“ Áréttað er að aðgangur almennings að vöruhúsunum sé takmarkaður við meðlimi sem greiða ársgjald fyrir aðild og að framvísa þurfi meðlimakorti í hvert skipti sem verslað er. „Fyrirkomulag þetta getur verið þáttur í því að tryggja að einstaklingar undir lögbundnum áfengiskaupaldri kaupi ekki áfengi.“
Þá segir að félagið sé einn stærsti innflytjandi franskra vína til Bandaríkjanna og hafi því nú þegar komið á viðskiptasamböndum sem gætu leitt til nýbreytni og aukið úrval léttvína sem og annarra áfengistegunda.
Á föstudaginn greindi mbl frá því að stjórnendur Costco hefðu verið á Íslandi í síðustu viku að skoða aðstæður og innflutningsmál. Guðmundur Ingvi segir ekki ljóst hvenær ákvörðun verður tekin um komu Costco til landsins. Þá sagði hann ekkert eitt atriði standa því í vegi, en stjórnendur verslunarinnar vilja kynna sér landið og reglurnar vel áður en svo verður gert.