Þáttargerðarfólk hjá sjónvarpsstöðinni iSTV hefur ekki fengið greitt fyrir vinnu sína í sumar samkvæmt heimildum mbl. Stjórnarmaður fyrirtækisins segir skiptar skoðanir um þá reikninga sem stöðinni hafa borist.
„Við erum aðeins að þreifa á þessum málum. Þetta er í vinnslu og skýrist vonandi á næstu dögum,“ segir Baldvin Heimisson, stjórnarmaður hjá iSTV. Útsendingum sjónvarpsstöðvarinnar hefur verið hætt í bili en starfsemin hófst þann 17. júlí sl. Þorsteinn Steingrímsson, stjórnarformaður stöðvarinnar, sagði á mánudaginn í samtali við mbl að verið væri að endurskipuleggja fyrirtækið og safna nýju efni. Stefnt er að því að hefja aftur útsendingar í kringum áramótin.
Baldvin segir að búið sé að borga flestum eitthvað en ágreiningur sé hins vegar um vinnsluaðferðir. Hann segir að upphaflega hafi þáttagerðarfólkið átt að afla kostunaraðila og auglýsinga fyrir þættina á eigin vegum.
Það hafi hins vegar breyst í meðförum stjórnenda en heimild aldrei verið fengin hjá stjórn félagsins. „Þess vegna fór þetta úr böndunum,“ segir Baldvin. „Svo er núna búið að borga fólkinu fyrir hluta vinnunnar en við eigum eftir að leysa úr einhverjum vandamálum,“ segir Baldvin.
Framkvæmdastjóri, markaðsstjóri og dagskrárstjóri sjónvarpsstöðvarinnar, þeir Jón E. Árnason, Björn T. Hauksson og Guðmund Tý Þórarinsson, hættu allir störfum í september og báru við trúnaðarbresti og samstarfsörðugleikum við stjórn og aðaleigendur sjónvarpsstöðvarinnar. Þorsteinn sagði þá í samtali við mbl að fyrrnefndir samstarfsörðuleikar fælust líklega í því að þeir hafi talið sig geta stýrt stöðinni sjálfir eins og þeir vildu, skuldsett hana eins og þeir vildu en aðrir fengið að borga brúsann. „Aðal erfiðleikarnir voru þeir að þessir hluthafar voru með aðra sýn á rekstur stöðvarinnar en þeir sem héldu á peningamálunum,“ sagði Þorsteinn. Að sögn Baldvins eru ekki komnir nýjir hluthafar í þeirra stað en verið er að vinna að því.