Ferð um íshellinn kostar 17.900

Íshellirinn er um 450 metra langur.
Íshellirinn er um 450 metra langur. Ljósmynd/Sigurður Skarphéðinsson

Stefnt er að opnun íshellisins á Langjökli þann 1. júní á næsta ári og hefur fyrirtækið IceCave, sem stendur fyrir framkvæmdunum, birt myndband þar sem „flogið“ er þar í gegn og áhorfendur geta skyggnst inn fyrir opnun.

Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri íshellisins, segir að hellirinn verði þó ekki nákvæmlega eins og í myndbandinu en öll rýmin verða til staðar fyrir utan eitt; þar sem greina má appelsínugulan lit og grýlukerti. „Þar komum við að sprungu, þar sem hægt er að sjá grýlukerti og vatn ásamt öðru stórfenglegu,“ segir hann. „Það er ekki oft sem ferðamenn geta skoðað gríðarlega stóra sprungu að neðan, upplýsta og í öruggu umhverfi. Sprungur eru stórmerkilegt fyrirbæri og það eru tiltölulega fáir sem hafa skoðað slíkt án þess að hafa mikla þekkingu á fjallamennsku og ferðalögum á jökli,“ segir Sigurður og bætir við að brú verði lögð yfir sprunguna. „Manneskjan er mjög lítil þegar hún stendur þarna inni,“ segir hann.

Um 300 milljón króna framkvæmdir

Sigurður segir framkvæmdir vera á áætlun en reiknað er með að boranir klárist í lok janúar en þá á eftir að vinna í lýsingu og öðrum smáatriðum. Borað er um 200 metra inn í jökulinn en þar sem göngin liðast er heildarlengd þeirra um 450 metrar og er áætlað að það muni taka um 40 til 60 mínútur að ganga þar í  gegn. Þá verða stutt stopp á leiðinni þar sem fræðslumynd um jökla verður sýnd í tveimur „bíósölum“ á leiðinni. Bíósalirnir eru þó heldur óhefðbundnir þar sem einungis er um íshelli með upphengdu tjaldi að ræða.

IceCave mun sjá um að koma fólki að göngunum og lóðsa það í gegn. Farið verður upp á jökulinn í sérútbúnum áttahjóla trukkum og mun tveggja og hálfrar klukkustundar ferðin kosta 17.900 krónur frá jökulrönd. Þá verður einnig boðið upp á dagsferð þar sem lagt er af stað frá Reykjavík en sú ferð mun kosta 29.900 krónur.

Framkvæmdirnar kosta alls um 250 til 300 milljónir króna en þeir eru fjármagnaðar að fullu af Icelandic Tourism Fund sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða, Landsbankans og Icelandair Group.

Framkvæmdum verður að mestu lokið í janúar en þá þarf …
Framkvæmdum verður að mestu lokið í janúar en þá þarf að setja upp lýsingu. Ljósmynd/Sigurður Skarphéðinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK