Það vakti athygli margra að OPEC ákvað í vikunni að halda áfram jafnmikilli framleiðslu á olíu og á undanförnum mánuðum, þrátt fyrir að olíuverð í heiminum hafi lækkað úr 100 dollurum á tunnu í júní, í 73 dollara í þessari viku.
Við þessa ákvörðun féll olíuverðið enn frekar, niður í rúmlega 66 dollara á tunnu. Fyrirtæki sem framleiða olíu hafa einnig lækkað töluvert í verði. Chevron lækkaði um 5% og Exxon um 4%.
Framleiðendur eru því ekki ánægðir með þessa ákvörðun OPEC, en neytendur, og þá sér í lagi stórir neytendur líkt og flugfélög, uppskera ávextina af ákvörðuninni. Flugfélagið Southwest Airlines hækkaðu í verði um 6,5% og Delta Air Lines um 5,5%.
En af hverju ákvað OPEC að hækka ekki verðið? Sérfræðingar benda á þrjár ástæður. Í fyrsta lagi er það aukin framleiðsla í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum. Sú aukna framleiðsla sem hefur átt sér stað, hefur leitt til lækkunar á olíuverði, án þess að OPEC-löndin hafi aukið sína framleiðslu. Lönd eins og Kanada og Kína hafa einnig aukið framleiðslu sína umtalsvert, auk Líbýu, sem er hægt og rólega að nálgast fyrri framleiðslutölur eftir erfiða borgarastyrjöld árið 2011.
Í öðru lagi er það minnkandi eftirspurn eftir olíu í Evrópu og Japan eftir efnahagskreppuna. Neyslan í Evrópu og í Japan hefur enn ekki náð sömu hæðum og hún náði þegar kreppan skall á.
Í þriðja lagi nefna sérfræðingar hina auknu kröfu um sparneytnari bíla. Þessi þróun er víða um heim, og sérstaklega sterk er hún í Bandaríkjunum, þar sem Bandaríkjamenn virðast vera að skipta út stórum bensínbílum fyrir minni, sparneytnari bíla.
Sjá umfjöllun Washington Post