„Mér finnst ferlegt hversu mörg fyrirtæki deyja, eða ganga ekki sem skyldi, vegna þess að það vantar upp á þekkingu og skilning á markaðsmálunum,“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, sem starfar undir merkjum Markaðsmála á mannamáli. Þóranna gefur út bókina „Marketing Untangled“ í netverslun Amazon hinn 3. desember.
Bókin verður fyrst gefin út í rafrænu formi og síðar á prenti en einnig er fyrirhugað að gefa út hljóðbók. Ekki er prentað fyrirfram ákveðið upplag af bókinni heldur er hún einungis prentuð fyrir hverja pöntun. Bókin er fyrsta bókin í seríu sem ætlað er að setja markaðsmálin fram á praktískan hátt þannig að fræðin nýtist beint fyrir minni fyrirtæki. Í henni er farið yfir fimm helstu þætti þess að setja upp öflugt markaðsstarf og í kjölfarið munu koma út fimm bækur sem kafa dýpra í hvern og einn þessara þátta. „Hér verður hægt að kynnst þessu án þess að þurfa að eyða í það fúlgu fjár og heilmiklum tíma,“ segir Þóranna.
Spurð um algengustu mistökin tengd markaðsmálum segir hún skort á grunnvinnu vega þyngst. „Hún gleymist ekki endilega af vanrækslu heldur áttar fólk sig einfaldlega ekki á því hvernig þetta virkar. Markaðsfræði 101 er ekkert kennd í grunnskóla,“ segir hún.
Þóranna hefur unnið mikið við kennslu í markaðsfræði og verið minni fyrirtækjum og frumkvöðlum innan handar. „Ég hef unnið það mikið með slíkum aðilum að ég hef tekið eftir að markaðsmálin eru yfirleitt það sem klikkar. Ég er að reyna koma þessu til skila þannig að þetta virðist ekki vera jafn mikill frumskógur,“ segir hún.
Eitt aðalatriðið segir hún vera að skilgreina markhópinn og á það sérstaklega við um Íslendinga sem oft vilji selja öllum allt vegna smæðar landsins. „Þá verður þetta hálfgert miðjumoð og að lokum ekki fyrir neinn,“ segir hún. „Ég legg mikla áherslu á að fólk byggi upp sitt vörumerki og ímynd og að það sé búið að átta sig á hvernig það vilji birtast og hvernig það sé öðruvísi,“ segir Þóranna. „Hvernig persóna þú ætlar að vera á markaðnum.“
Um skærbleiku bókakápuna segir hún litinn vera úthugsaðan. „Liturinn þurfti að endurspegla vörumerkið,“ segir hún glettin. „Þessi litur er gagngert valinn vegna þess að hann er líflegur og kraftmikill og stuðar án efa einhverja,“ segir hún.