Til að mæta sívaxandi áhuga á íslenskum lopapeysum hefur Icewear hafið framleiðslu á vélprjónuðum lopapeysum í verksmiðju sinni í Vík í Mýrdal. Peysurnar eru úr léttlopa og prjónaðar í vélum sem nýverið voru fluttar til landsins og eru vélarnar þær einu hérlendis sem ráða við að prjóna úr lopa.
Í fréttatilkynningu frá Icewear segir að peysurnar séu prjónaðar í anda hinnar klassísku íslensku lopapeysu hvað varðar áferð og munstur en eru allt að 40% ódýrari en innfluttar handprjónaðar lopapeysur. Miðað við full afköst prjónavélanna getur Icewear framleitt allt að 10.000 lopapeysur á ári og eru fyrstu peysurnar þegar komnar í verslun Icewear í Bankastræti.
Eftirspurn eftir íslenskum ullarvörum hefur aukist verulega á undanförnum misserum og til að mæta henni hefur Icewear fjölgað prjónavélum sínum í Vík úr sex í tólf. Tvær þeirra nýtast við lopapeysuprjónið. Fjölgun prjónavélanna er ætlað að anna aukinni eftirspurn eftir prjónavörum úr íslenskri ull, bæði hérlendis og á erlendum mörkuðum.
Nýju prjónavélarnar eru frá þýska framleiðandanum Stoll en starfsfólk verksmiðjunnar í Vík sótti námskeið í meðferð þeirra hjá framleiðandanum í borginni Reutlingen sem er 40 kílómetra norðan við Stuttgart. Sérfræðingar frá Stoll sáu um uppsetningu vélanna í Vík og þjálfuðu starfsfólkið í notkun þeirra.
Icewear opnaði sína fimmtu verslun í sumar á Akureyri. Fyrirtækið rekur einnig verslun í Vík í Mýrdal og þrjár verslanir í Reykjavík, á Skarfabakka, í Bankastræti og Fákafeni.