Fjallað var um sölu Landsbankans á 31,2% hlut sínum í Borgun til félagsins Borgunar slf. á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag. Að sögn Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, komu aðilar frá Bankasýslu ríkisins, Samkeppniseftirlitinu auk bankastjóra Landsbankans, Steinþór Pálsson, fyrir nefndina og svöruðu spurningum um söluferlið.
Að sögn Frosta var farið yfir helstu atriði málsins og fengust góð og skýr svör og ríkir nú betri skilningur um málið. Hann gat þó ekki svarað því hvort Alþingi muni aðhafast frekar í málinu. Þá gat hann ekki veitt upplýsingar um svör þeirra er komu fyrir nefninda að öðru leyti en að þau hefðu varpað skýrara ljósi á atvik málsins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kallaði eftir sérstakri athugun á sölunni þar sem skoðað yrði hvers vegna hlutir Landsbankans í Borgun hafi ekki farið í opið söluferli. Benti hann á að Landsbankinn væri í eigu ríkisins og að reglur gildi um sölu á þeim eignum. Þorsteinn var á fundinum ásamt Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem einnig hafði gagnrýnt söluferlið.
Söluverð Borgunar var tæpir 2,2 milljarðar króna og var haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, í tilkynningu að Landsbankinn hefði á undanförnum árum verið áhrifalaus minnihlutaeigandi í Borgun og að sú staða hafi verið óviðunandi.
Í frétt Kjarnans um málið var haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að stofnunin teldi söluna jákvæða þar sem lögð hefði verið á það áhersla við bankana að gerðar yrðu breytingar á eignarhaldi stóru greiðslukortafyrirtækjanna, þ.e. að bankarnir kæmu ekki saman að eignarhaldi og að breytingin væri til þess fallin að auka samkeppni á greiðslukortamarkaði. Þá samþykkti Bankaráð viðskiptin áður en þau voru kláruð.
Ekki náðist í Árna Pál eða Þorstein við vinnslu fréttarinnar.