Nægilega mörgum undirskriftum hefur verið safnað á vefsíðu leigubílaþjónustunnar Uber til þess að fyrirtækið geti hafið starfsemi í Reykjavík. Er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra á síðunni.
Viðskiptablaðið greindi fyrst frá þessu í dag. Ljóst er að fyrirtækið vex á ógnarhraða og er nú hægt er að nálgast þjónustuna í yfir 250 borgum um allan heim. Mbl.is greindi frá því á dögunum að Uber teldist orðið verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki heims eftir að fyrirtækið kláraði lokastig fjármögnunar sinnar. Er fyrirtækið metið á um 40 milljarða dollara.
Uber á enga bíla og engir starfsmenn eru hjá fyrirtækinu. Hins vegar tengir fyrirtækið farþega og almenna ökumenn saman í gegnum appið sitt. Mörg stéttarfélög leigubílstjóra hafa séð þróunina sem ógn og telja að unnið sé gegn hagsmunum stéttarinnar. Hafa þau sagt að bílstjórarnir hafi ekki réttindi til aksturs og reynt að koma í veg fyrir að leigubílar, sem ekki eru á venjulegum leigubílastöðvum, séu notaðir í slíkan akstur.