Aukin glæpastarfsemi ásamt svindli á farþegum getur fylgt leigubílaþjónustunni Uber, komi hún til landsins. „Hver ætlar að fylgjast með þegar Pétur og Páll eru að sjá um aksturinn?“ spyr Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama. Fyrirkomulagið segir hann fara gegn gildandi lögum. „Það gilda hér ákveðin lög um leigubifreiðar og það er ekkert hægt að fjölga þeim ef manni dettur í hug en þá er spurning hvort þetta fari út í ólöglega starfsemi,“ segir Ástgeir.
Þjónusta Uber virkar þannig að fólk getur pantað bíl í gegnum app í símanum. Fyrirtækið á enga bíla og engir starfsmenn eru hjá fyrirtækinu en hins vegar geta almennir borgarar skráð sig sem bílstjóra og tengir appið þá við farþega á sama svæði.
Líkt og mbl.is greindi frá í vikunni hefur nægilega mörgum undirskriftum verið safnað á vefsíðu leigubílaþjónustunnar til þess að fyrirtækið geti hafið starfsemi í Reykjavík. Er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra á síðunni.
Mörg stéttarfélög leigubílstjóra hafa séð þróunina sem ógn og telja að unnið sé gegn hagsmunum stéttarinnar. Hafa þau bent á að bílstjórarnir hafi ekki réttindi til aksturs og reynt að koma í veg fyrir að leigubílar, sem ekki eru á venjulegum leigubílastöðvum, séu notaðir í slíkan akstur.
Ástgeir bendir á að samkvæmt lögum um leigubifreiðar megi leigubílstjórar ekki hafa verið dæmdir til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot á þeim lögum sem um starfsemina gilda. Þá þurfa þeir að hafa lokið tilskildum námskeiðum auk fleiri skilyrða. „Ætlar fólk að senda börnin sín í þessum bílum. Ætlar það að treysta þessu?“ spyr Ástgeir. Þá vísar hann til nauðgunarmáls sem kom upp í Nýju-Delí á Indlandi þar sem stjórnvöld bönnuðu í kjölfarið þjónustuna. „Þetta var gefið frjást í Svíþjóð á sínum tíma og þeir eru enn að berjast við það. Það voru bara rán og morð og nauðganir sem fylgdu því í byrjun,“ segir hann og vísar til breytinga sem gerðar voru á sænskri löggjöf um leigubifreiðar á árinu 1989.
Aðspurður hvort aukin samkeppni á leigubílamarkaðnum sé ekki óumflýjanleg á einhverjum tímapunkti segir hann ómöglegt að samþykkja þetta í núgildandi lagaumhverfi. „Ég sé ekkert að þessu fyrirkomulagi hérna og hverju breytir það að kalla þjónustuna Uber eða að borga bara fyrir venjulegan leigubíl,“ segir hann.
Uber er nú starfandi í hundruð borga í 52 löndum og þar á meðal öllum Norðurlöndunum. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 og eru höfuðstöðvar þeirra í San Fransico í Bandaríkjunum. Uber telst orðið verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki heims eftir að hafa klárað lokastig fjármögnunar sinnar. Er fyrirtækið metið á um 40 milljarða dollara.
Í svari við fyrirspurn mbl segir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, Þórhildur Elínardóttir, að ekki sé gert ráð fyrir þjónustu sem Uber samkvæmt núgildandi lögum, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. „Lögin snúast um leyfisskyldan atvinnuakstur þar sem bæði leigubílastöð og bílstjóri þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði og hafa fengið úthlutuðu leyfi,“ segir hún
Þá segir hún að út frá þeim takmörkuðu upplýsingum sem Samgöngustofa hefur um starfsemi Uber virðist sem þar sé hvorki um að ræða leigubifreiðastöð né leigubílstjóra með atvinnuleyfi. „Til að fá slík atvinnuleyfi þurfa menn t.d. að hafa hreint sakavottorð. Hins vegar skal áréttað að ekkert er því til fyrirstöðu að Uber geti sótt um leyfi hjá Samgöngustofu,“ segir Þórhildur.
Aðspurð hvernig Samgönustofa myndi bregðast við slíkri starfsemi segir hún að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana og lögreglu gert viðvart eftir því sem við á. Þá gæti aksturinn haft afleiðingar fyrir umrædda bílstjóra þar sem um leyfisskylda starfsemi væri að ræða.
Til þess að aðlaga þjónustuna að íslenskum lögum þyrftu forsvarsmenn Uber að fá leyfi sem leigubifreiðastöð og allir bílstjórar þjónustunnar að fá úthlutað leyfi til leigubifreiðaaksturs. Þá er þó einnig er vert að hafa í huga að einungis er veittur takmarkaður fjöldi leyfa til leigubifreiðaaksturs.